Afdalamaður á Sjómannadegi

Baldur SigurlássonÉg prédikaði hér í Landakirkjuí Sjómannamessu og í aðdraganda þessarar prédikunar velti ég því mikið fyrir mér hvað ég ætti nú að segja í prédikun á sjómannadegi.  Hvað ætli afdalamaður að norðan, sem þekkir sjóinn nánast bara af afspurn, geti sagt í prédikun á sjómannadegi? Sveitamaður sem auk þess vissi hvorki hvort vertíð var að byrja eða enda þar til nýverið.   

Við sem erum alin upp í sveit horfðum alltaf til sjómanna með nokkurri lotningu og þjáðumst stundum af einhverskonar minnimáttarkennd.  Þetta birtist nokkuð vel í því þegar við Ævar Kjartansson, bekkjarbróðir minn í guðfræðinni vorum einu sinni að ræða málin, tveir sveitamenn að norðan, uppá svokölluðu kapellulofti í guðfræðideildinni.   

Umræðurnar snérust aðallega um hinar ýmsu gerðir dráttarvéla, þ.e. hvort vænlegra hefði verið að eiga Massa Ferguson, Ford, eða Zetor.  Ég var alltaf Ferguson maður, og þess vegna fór ég ekki hátt með það á sínum tíma þegar pabbi keypti Ford.  Hvað um það umræður okkar snérust semsagt um frægðarsögur úr sveitinni, hversu gamlir við höfðum verið þegar við fengum að snúa eða garða upp. Við fengum aldrei að slá, um það sá alltaf sá sem stóð fyrir búinu. 

Þegar umræður okkar félaganna eru að ná ákveðnu hámarki og karlagrobbið komið í botn.  Þá vindur sér að okkur bekkjarsystir okkar frá Skagaströnd, og bloggvinur minn, og segir: “Þetta minnir mig nú bara á þegar ég var í Smugunni.”  Síðan komu frásagnir úr smugunni og fleiri framandi stöðum, sem maður hafði bara heyrt um í fréttum.

Það er skemmst frá því að segja að við félagarnir urðum eins og smástrákar, og allar grobbsögur úr sveitinni urðu eins og fallegar kvöldsögur fyrir börn. Líklega þarf ég ekki lengur að þjást af minnimáttarkennd gagnvart sjómönnum í dag, því nú hafa sjómenn og bændur gengið í eina sæng í sameiginlegu ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar í nýrri ríkisstjórn.  Auk þess sem ég hef prédikað í sjómannamessu og tekið þátt í mínum fyrstu Sjómannadagshátíðarhöldum, sem tókust mjög vel hér í Eyjum.

P.S. myndin er fengin af heimasíðu Sigurgeirs ljósmyndara hér í Eyjum


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband