Eru allir skapaðir í Guðs mynd?
24.5.2007 | 22:27
Ég talaði við guðhrædda og góða konu um daginn sem sagði mér að sér fyndist samkynhneigð "viðbjóður" og slíkt fólk ætti ekki að sjást í kirkju. Hún sagðist jafnframt líta á samkynhneigð sem ákveðna tegund af fötlun!!! Fram að þessu hafði ég setið á mér í samtalinu, en gat ekki lengur orða bundist og spurði hvort henni fyndist að kirkjan ætti þar með að hætta kirkjustarfi fatlaðra?
Já það er með ólíkindum það sem fólk lætur frá sér fara þegar málefni samkynhneigðra ber á góma. En það skal skýrt tekið fram að samkynhneigð er ekki ákveðin tegund af fötlun. En vegna þessarar konu og reyndar málflutnings fleiri aðila sem ég hef rekist á, á netrallýi mínu ætla ég aðeins að halda áfram að fjalla um biblíuna og samkynhneigð.
Þegar kemur að vangaveltum um sköpun mannsins í mynd Guðs er að sjálfsögðu eðlilegt að horfa til fyrri sköpunarsögunnar sem er að finna í 1. kafla 1. Mósebókar:
Og Guð sagði: Vér viljum göra manninn eftir vorri mynd, líkan oss, og hann skal drottna yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir fénaðinum og yfir villidýrunum og yfir öllum skriðkvikindum sem skríða á jörðinni. Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu. Og Guð blessaði þau, og Guð sagði við þau: Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni. 1. Mósebók 1.26-28.
Hér segir klárlega að manneskjan sé sköpuð í Guðs mynd, en hér er einnig talað um drottnun hennar yfir jörðinni auk þess sem frjósemishlutverkið er undirstrikað. Ég ætla einkum að beina sjónum mínum að frjósemisparti frásagnarinnar og þeirri hugmynd að manneskjan sé sköpuð í Guðs mynd.
Fyrst verðum við að gera okkur grein fyrir því að fyrr á öldum var karlmaðurinn einungis talinn skapaður í mynd Guðs, og konan hafði bara aukahlutverki að gegna í þessari sviðsetningu sem Guð hafði búið karlmanninum. Lengi vel héldu lærðustu sérfræðingar og kirkjufeður því fram að konan væri ekkert annað en vanskapaður karlmaður, og væri einungis nothæf til undaneldis. Í raun var hún bara hlutur, samkvæmt þessari hugmynd, en ekki virkur þáttakandi í sköpun nýs einstaklings. Þessi neikvæðni í garð kvenna tengist hugmyndinni um þiggjanda og geranda í kynlífi í grísk-rómverskri menningu og fram á miðaldir.
Engum dettur í hug að láta það út úr sér í dag að konan sé vanskapaður karlmaður. Tímarnir breytast og mennirnir með segir máltækið. Það á svo sannarlega vel við þegar kemur að viðhorfi kirkjunnar til kvenna. Viðhorf kirkjunnar í dag miðað við það sem var fyrir 50 árum, hvað þá 500 árum er ekki saman að jafna.
Þannig sjáum við að þó kirkjan telji sig boðbera sannleikans á öllum tímum, þá er hinn sögulegi sannleikur ekki sá sami í dag og hann var í gær. Samfélagið tekur stöðugum breytingum og kirkjan verður að sjálfsögðu að fylgjast með því sem gerist í samfélaginu. Það er ekki þar með sagt að hún hlaupi á eftir einhverjum kreddum eða vitleysi þó hún taki breytingum í viðhorfi og túlkun á textum biblíunnar, enda er tiltölulega stutt síðan nútíma biblíurannsóknir hófust á. Við sjáum hins vegar í hendi okkar að sú túlkun sem gilti áður, um að maðurinn væri skapaður í Guðs mynd, átti einungis við karlamanninn en ekki konuna; ekki við óheilbrigða karlmenn heldur heilbrigða. Slíkt þykir okkur firra í dag.
Hugmyndin um gagnkvæmni kynjanna hefur verið nokkuð lífsseig innan kirkjunnar. Þessi hugmynd gengur í stórum dráttum út á það að manneskjan verði ekki heil fyrr en í hjónabandi karls og konu. Með þessum rökum væri hægt að segja að manneskjan sé ekki nema að hálfu leyti sköpuð í Guðs mynd því í hjónabandinu verða einstaklingarnir heilir, - eitt hold,- og þannig verður til hin sanna sköpun í mynd Guðs.
Þessi skilningur er í besta falli ákaflega vandræðalegur, því margir kjósa einfaldlega að giftast ekki og lifa jafnvel einlífi. Aðrir hafa ekkert val vegna líkamlegra eða andlegra krankleika. Þó ekki væri nema af þessum ástæðum þá hafa þessi rök í raun fyrir löngu verið afgreidd sem ákveðin rökleysa, jafnvel þó margir kirkjunnar menn kjósi að nota þau enn í dag.
Í sköpunarfrásögunni hér að framan eru ekki sett nein skilyrði fyrir því að manneskjan sé sköpuð í Guðs mynd: Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu. Í frásögninni er hvergi minnst á hjónabandið, enda skipti kirkjan sér ekki af hjónabandinu að neinu marki fyrstu 1000 ár kristninnar.
Í þessu ljósi hafa menn gripið til þess ráðs að segja kynhvötina ekki vera hluta af guðsmyndinni. Nokkuð augljóst virðist vera að þessi hugmynd tengist þeim vandræðagangi sem kirkjan hefur í gegnum tíðina sýnt af sér varðandi málefni sem tengjast kynlífi, kynhvöt og kynhneigð. Oft virðist manni það vera reglan að þeim mun uppteknari sem kirkjufeðurnir eru af einlífinu, þeim mun uppteknari eru þeir í raun af kynlífinu og þeim hvötum sem þar liggja að baki.
Orðið sjálft, kynhvöt, gefur okkur strax þá mynd að hér sé um hvöt að ræða sem er meðfædd. Enda gefur textinn í raun ekkert annað til kynna en að kynhvötin sé hluti af Guðs góðu sköpun. Ef kynhvötin hefur ekki verið hugsuð sem hluti af Guðs góðu sköpun þá hefði textinn án efa tekið það skýrt fram. Þessi texti sýnir okkur svo ekki verður um villst að við erum öll sköpuð í Guðs mynd, öll jafn mikið, óháð kyni, kynþætti eða kynferði.
Í raun snýst túlkun á textum biblíunnar, um að sjá skóginn fyrir trjánum. Þ.e. að reyna að koma auga á kjarnann í boðskapi textans. Hvað er það sem skiptir máli í viðkomandi texta, hvað skiptir minna máli og hvað skiptir engu máli.
Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor í Gamla testamentisfræðum við Guðfræðideild Háskóla Íslands, hefur bent á að það væri misnotkun á biblíunni og hinum rauða þræði í boðskap hennar að nota texta eins og 3M 18.22 og 20.13 sem vegvísi fyrir kristna kirkju um hvaða afstöðu hún skuli taka til samkynhneigðra og baráttu. Hér hittir Gunnlaugur einmitt naglann á höfuðið því sköpunarsögu textinn fjallar ekki á neinn hátt um samkynhneigð. Hann fjallar aftur á móti um sköpunina. Hann fjallar um að manneskjan sé sköpuð í Guðs mynd óháð kyni, litarhætti eða kynhneigð.
Kannski kemur meira seinna...sjáum til í hvaða áttir hugurinn reikar
Meginflokkur: Trúmál og siðferði | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:29 | Facebook
Athugasemdir
Kvittun fyrir innlit. Góðar hugrenningar! Kv. B
Baldur Kristjánsson, 24.5.2007 kl. 22:39
Afskaplega góð færsla Örri! kveðja, Sunna!
Sunna Dóra Möller, 25.5.2007 kl. 11:43
Takk fyrir þessar pælingar. Var með 16 ára nemanda í bekknum mínum sem áleit það álíka synd að fara inn í búð og stela og vera samkynhneigður! .. Manni fallast næstum hendur...
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 25.5.2007 kl. 11:53
Þetta var gott lesefni. Þökk fyrir það.
Hildur Inga Rúnarsdóttir (IP-tala skráð) 25.5.2007 kl. 13:08
FRÁBÆRT!
Haltu áfram á þessari braut!
Mitt próblem er bara að það er ekki svo auðvelt að vita HVENÆR nýjar færslur koma sem ég vil lesa? Ég meina - ég hef ekki tíma til að fylgjast með á hverjum degi. Er einhver leið á blogginu til að fá tilkynningar á e-mail um tilteknar bloggfærslur?
asgeir
Ásgeir Rúnar Helgason, 25.5.2007 kl. 19:33
Vel skrifaðir pistlar af vel meinandi manni. Hjartans þakkir!
Svavar Alfreð Jónsson, 25.5.2007 kl. 22:51
Gott að heyra að þessar vangaveltur falla í góðan jarðveg hjá ágætum bloggvinum. Takk fyrir mig.
Guðmundur Örn Jónsson, 27.5.2007 kl. 15:46
Ekki tek ég undir fagnaðarkórinn hér á þessari síðu. Það var ekki afstaða kirkjunnar í fornöld og á miðöldum, að einungis karlmaðurinn væri skapaður í Guðs mynd. Þessi grein séra Guðmundar Arnar hefur ýmsar miður sniðugar áherzlur. Þar að auki er ég alls ekki sammála vini mínum og skólafélaga dr. Gunnlaugi Andreasi um skilninginn á Mósebókartextunum um samkynja kynmök. Þótt allir menn séu vissulega skapaðir í Guðs mynd, afnemur sú meginforsenda guðfræðilegrar mannfræði alls ekki það, sem Biblían kveður á um margvíslegar mannanna syndir, alvarleika þeirra og afleiðingar, grípi Guð ekki inn í (eins og hann bæði getur og hefur gert fyrir m.a. samkynhneigða, sjá I.Kor.6.11) með fyrirgefningu sinni, réttlætingu og helgun, hafi menn iðrazt og leitað til hans.
Jón Valur Jensson, 3.6.2007 kl. 01:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.