Ársskýrsla Stígamóta kynnt.
21.5.2007 | 17:43
Í ársskýrslu Stígamóta kemur fram að 9 hópnauðganir komu inná borð þeirra og 15 lyfjanauðganir. Þetta eru óhuggulegar tölur. Þessar tegundir nauðgana eru alltaf skipulagðar, þannig að hér er ekki um eitthvert stundarbrjálæði að ræða, heldur skipulagða aðför að lífi einstaklinga, sálarheill og velferð.
Í skýrslu Stígamóta kemur einnig fram að það sé að færast í aukana að kynlífsathafnir fólks séu settar á netið, hvort sem það er með samþykki fólks eða ekki, og efni sem tekið er upp í tengslum við lyfjanauðganir rata einnig á netið, eða konum er hótað að það verði sett á netið.
Maður hlítur að spyrja sig á hvaða leið við erum? Hverslags þankagangur ræður því að nokkrir piltar taka sig saman og nauðga stúlku? Hvað gerir það að verkum að menn lauma lyfjum útí drykki kvenna til þess að nauðga þeim?
Það er margt sem kemur fram í skýrslu Stígamóta, margt óhuggulegt, þegar maður gerir sér grein fyrir því að á bak við hverja einustu tölu er einstaklingur sem brotið hefur verið á, líf viðkomandi hefur beðið skipbrot. Nauðgun er ekki bara einstakur atburður sem á sér stað á ákveðnum tímapunkti, heldur fylgir viðkomandi mun lengur útí lífið, jafnvel allt til enda.
En Guði sé lof fyrir samtök eins og Stígamót, sem hjálpa við uppbyggingu fólks. Hér til Eyja koma hún Rúna Jónsdóttir, talskona Stígamóta, fyrir nokkrum vikum og hélt fund fyrir þolendur, aðstandendur og aðra þá sem koma að kynferðisbrotamálum. Þetta var góður fundur, þó hann hafi í raun verið fámennari en við vonuðumst eftir sem stóðum að fundinum. Kannski eðlilegt, því þetta var opinn fundur og fólk kannski hrætt við að opinbera sig með mætingu á slíkan fund. En auðvitað líkur ekki málum með einum slíkum fundi, því í kjölfarið var tekin ákvörðun um að halda þeirri hópavinnu áfram sem þegar var byrjuð.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.