Blessun staðfestrar samvistar til umfjöllunar á Leikmannastefnu
10.5.2007 | 11:16
Nú er nýlokið Leikmannastefnu Þjóðkirkjunnar, sem haldin var á Stykkishólmi að þessu sinni. Þar er að finna áhugaverða samþykkt:
"Leikmannastefnan lýsir stuðningi við drög að ályktun kenningarnefndar um Þjóðkirkjuna og staðfesta samvist og leggur sérstaka áherslu á að þau mál er lúta að hjónabandsskilningi og blessun eða staðfestingu samvistar samkynhneigðra eru enn til umræðu og verða ekki til lykta leidd innan kirkjunnar fyrr en á Kirkjuþingi á hausti komanda.
Leikmannastefna telur að góður vilji sé til þess í söfnuðum landsins að mæta óskum um að prestar komi að blessun og staðfestingu samvistar samkynhneigðra.
Á hinn bóginn er enn sterkari vilji meðal safnaðarfólks til þess að standa vörð um hefðbundinn skilning á hjónabandinu sem sáttmála karls og konu og sem sköpunarreglu Guðs. Um fyrirsjáanlega framtíð er því ekki um það að ræða að leikmenn innan kirkjunnar séu almennt reiðubúnir til þess að skilgreina hjónaband eða hjúskap kynhlutlaust. Í þessum efnum telur leikmannastefna að hægara og raunsærra sé að bæta við hliðstæðu og jafngildu vígsluformi en að breyta inntaki hjónavígslunnar.
Leikmannastefna telur að til álita komi af hálfu Kirkjuþings að heimila prestum, sem það kjósa, að staðfesta samvist samkynhneigðra para. Alþingi og kirkja gætu hugsanlega mæst í samþykkt og samskilningi á slíku heimildarákvæði.
Leikmannastefna varar við einföldunum og upphrópunum í sambandi við þau flóknu álitamál sem uppi eru varðandi Þjóðkirkjuna og staðfesta samvist. Þeir sem vilja fjalla um þau á opinberum vettvangi eru hvattir til þess að kynna sér áður álit kenningarnefndar og form helgisiðanefndar fyrir blessun staðfestrar samvistar. Innan Þjóðkirkjunnar er fengist við þessi mál af einurð og alvöru og þau verða leidd til lykta af hennar hálfu á Kirkjuþingi í haust."
Þarna má segja að leikmannastefnan gangi skrefi lengra en prestastefna gerði, og hefði ef til vill gert ef tillaga Péturs og Sigurðar hefði fengist rædd að einhverju marki. (Sú tillaga gekk útá að þeir prestar sem það kysu yrðu vígslumenn staðfestrar samvistar) Ég fagna samþykkt leikmannastefnunnar, en þess ber auðvitað að geta, eins og fram kemur hjá leikmannastefnu, að það er á Kirkjuþingi sem málið verður leitt til lykta. Það sem samþykkt er á prestastefnu eða leikmannastefnu fellur nánast marklaust niður ef Kirkjuþing samþykkir eitthvað annað, eða fellir málið með einhverjum hætti. Þannig að næsta skref verður tekið á Kirkjuþingi ef að líkum lætur. Það verður sannarlega spennandi að fylgjast með störfum Kirkjuþings, og ekki verður síður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr þeirri skoðanakönnun sem samþykkt var að Biskupsstofa myndi gera.
Nánar um málið á vef Þjóðkirkjunnar
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 11:59 | Facebook
Athugasemdir
Sæll, Guðmundur Örn. Var þessi Leikmannastefna ekki að miklum hluta skipuð yngra fólki fremur en eldra? Yfirlýsing hennar er miklu róttækari í átt til samkynhneigðrastefnunnar en það sem ég hef heyrt frá t.d. einum safnaðarfundi, þar sem ríkti nánast eining meðal þeirra mörgu, sem til máls tóku, um að hvorki gifting né formleg staðfesting samvistar samkynhneigðra komi til greina í Þjóðkirkjunni. Hinir kirkjuræknu, ólíkt þeim dauftrúaðri sem sitja heima á sunnudögum, hygg ég að séu almennt miklu andvígari þessari tízku-róttækni heldur en prestarnir og gufræðingarnir, einkum þeir ungu.
Ofurbjartsýni er það af hálfu þessarar Leikmannastefnu að halda, að baráttuforkólfar samkynhneigðraflokksins sætti við neitt minna en fulla "giftingu samkynhneigðra" frammi fyrir altarinu. Ásakanirnar um "mismunun" og "misrétti" eiga eftir að dynja á kirkjunni, þótt hún gangi í raun allt of langt með undanlátssemi við þessa aðila nú þegar.
Ekki hef ég mikið álit á "áliti Kenningarnefndar" í ljósi betri guðfræði og á eftir að færa fyrir því rök síðar.
Jón Valur Jensson, 10.5.2007 kl. 13:18
Mér þykir afar líklegt að Leikmannastefnan hafi verið skipuð eldra fólki þó ég þori svo sem ekki að fullyrða það, það hefur a.m.k. verið reynslan hingað til. Ég er þess fullviss að "baráttuforkólfar samkynhneigðraflokksins" séu tilbúnir að fallast á þá leið að prestar verði vígslumenn staðfestrar samvistar, enda bjóða hjúskaparlögin ekki uppá annað. Ég hef tröllatrú á því að góðar og hreinskilnar samræður skili árangri í þessu máli þannig að niðurstaða fáist í málið. Þannig að þeir sem vilja skilgreina hjónaband kynlaust og þeir sem vilja halda sig við skilgreiningu hjúskapar útfrá kynjunum, nái lendingu. Ég hef áður minnst á ræðu sr. Úlfars þar sem hann talaði um þrjár "tegundir" sambúðarforma, þ.e. hjónaband, hommaband og lesbíuband og ég ítreka að þetta er sett fram í þeim tilgangi að sýna framá sérleik hvers sambúðarforms, en ekki sem stigskipting sambúðarformanna.
Guðmundur Örn Jónsson, 10.5.2007 kl. 22:49
Bjartsýnn maður Guðmundur Örn.
Jón Valur Jensson, 11.5.2007 kl. 00:06
Hárrét hjá þér Jón Valur, ég er bjartsýnn að eðlisfari, drakk í mig bjartsýni úr ferskum fjallalækjum norður í Fnjóskadal.
Guðmundur Örn Jónsson, 11.5.2007 kl. 00:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.