Fréttir af Prestastefnu
26.4.2007 | 14:56
Ég hef setið mína fyrstu prestastefnu undanfarna daga. Þar var miklum tíma varið í umræðu um blessun yfir staðfestri samvist samkynhneigðra. Það var samþykkt og þar með gekk íslenska kirkjan mun lengra en aðrar kirkjudeildir í heiminum hafa lagt í að fara. Það er fagnaðarefni! Ég er sannfærður um að ef hópur 42 tveggja aðila hefði ekki komið fram með sína tillögu þá hefði ef til vill verið hægt að koma málefnum lengra áfram en raunin varð.
Ég er heldur ekki allskosta sáttur við viðtal sem birtist við sr. Bjarna Karlsson í Fréttablaðinu þar sem hann grætur niðurstöðu prestastefnu og sakar þá sem ekki greiddu atkvæði með tillögunni um fordóma í garð samkynhneigðra, í þennan hóp skipar sr. Bjarni mér semsagt. Þvílik fyrra, það vita allir sem mig þekkja og vita fyrir hvað ég stend.
Annars stóð ég í ströngu á minni fyrstu prestastefnu því ég var settur sem ritari prestastefnu ásamt þremur öðrum.
Ég kem til með að fjalla aðeins meira um prestastefnu seinna, en nú er ferðinni heitið aftur suður yfir heiðar með viðkomu í Fnjóskadalnum.
Á myndinni sem með fylgir sést ég lengst til hægri (reyndar ekki mjög áberandi)
Tillaga um hjónavígslu samkynhneigðra felld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég held að þú ofmetir lengd framfaraskrefsins sem var samþykkt - og þess sem ekki kom til atkvæða (leið Péturs og Sigurðar Grétars). Samþykkt var að leyfa það sem búið var að leyfa 1997, að blessa eitthvað sem samkynhneigðir álíta í auknum mæli að sé hliðarspor til að tefja raunverulega réttarbót. Að leyfa kirkjunni löggerning þess (sænska leiðin, leið Péturs og Sigurðar) er lítið meira. Hefði þetta verið samþykkt og "hypað" sem framför, ætla ég að við hefðum beðið önnur tíu ár eftir að málið verði tekið upp aftur.
Ég held að ummæli Bjarna um fordóma sé ekki sanngjörn, en það eru ummæli af íhaldsamari vængnum, sem ætluðu okkur meðmælendum tillögunnar annarlegar langanir og sjálfsdýrkun ... ekki heldur. Ekki að eitt réttlæti annað.
En fyrir hvað stendur þú, hvað finnst þér?
Carlos (IP-tala skráð) 28.4.2007 kl. 15:35
Örri, mig langar til að spyrja þig að hvaða leyti telur þú ályktun 42 prestanna hafa hamlað því að réttindi samkynhneigðra hafi náð fram að ganga. Það er finnst ég ekki rétt að skella skuldina á þá, að ekki hafi nást fram frekari réttindi. Skella skuldinni á fólkið sem að einmitt þorir að berjast opinberlega fyrir þeim og vilja ganga alla leið. Ég sé ekki hvernig það hamlar einu eða neinu. Svolítið ódýr lausn. Ég tel að á þessari prestastefnu hafi aldrei verið ætlun að ganga lengra en álit kenningarnefndar. Sama hvort að til ályktunarinnar hafi komið eða ekki. Viljinn var ekki meiri að þessu sinni!!
Með vinsemd og virðingu, sunna
Sunna Dóra Möller, 28.4.2007 kl. 16:15
Sæll Örri. Varðandi ummæli Bjarna, ertu að vísa til viðtals í Fréttablaðinu sem birtist fimmtudaginn 26.apríl. Er það viðtalið sem þér sárnar út af? Ef það er viðtalið sem um ræðir að þá hef ég lesið það 10 sinnum yfir og ég fæ ekki séð að hann sé að saka þig um fordóma.
"sakar þá sem ekki greiddu atkvæði með tillögunni um fordóma í garð samkynhneigðra, í þennan hóp skipar sr. Bjarni mér semsagt. Þvílik fyrra, það vita allir sem mig þekkja og vita fyrir hvað ég stend."
Leiðréttu mig ef þetta er annað viðtal sem um ræðir. Ég spyr eins og Carlos, hvar stendur þú í þessu máli?
Kv. Heimir
Heimir Haraldsson (IP-tala skráð) 28.4.2007 kl. 17:32
Þetta: "Það er finnst ég ekki rétt að skella skuldina á þá, að ekki hafi nást fram frekari réttindi." á að lesast svona:
Mér finnst ekki rétt að ásaka þau sem að ályktuninni stóðu, að það ekki hafi náðst fram frekari réttindi vegna hennar!
Stundum er gott að lesa yfir það sem skrifað er...
Sunna Dóra Möller, 28.4.2007 kl. 17:42
Carlos (og Sunna): Ég held að ef 42 menningarnir hefðu verið tilbúnir að falla frá tillögunni þá hefði gefist mun meira rúm fyrir tillögu Pétur og Sigurðar og að hún hefði einnig komið mun fyrr fram í umræðunni. Ég er hef það líka á tilfinningunni að þið hafið noað orðið "hjónaband samkynhneigðra" viljandi til að ögra þeim sem ekki vilja ganga eins langt í þessu máli.
Sunna: Ég held að það sé vissulega rétt hjá þér að það var ekki á dagskrá prestastefnu að ganga lengra en ályt kenninganefndar hljóðaði uppá, enda sýnir dagskrá prestastefnu það. En ég held að tækifæri til umræðu hefði boðist um tillögu Péturs og Sigurðar ef mál hefðu æxlast öðruvísi.
Heimi: Kannski er ég að lesa meira úr orðum Bjarna en efni standa til, ef svo er þá biðst ég að sjálfsögðu forláts. En í orðum Bjarna og síðan Óskars skína ekki bara vonbrigði, heldur ákveðið óréttlæti í garð þeirra sem ekki eru tilbúnir að skrifa undir þeirra heimssýn. Síðan má ekki gleyma því að þessir sömu aðilar lýstu því sjálfir yfir að sama hvernig málið færi þá yrðu engir eftirmálar. Raunin er önnur þegar komið er fram fyrir fjölmiðlafólkið. Þá blygðast menn sín fyrir kirkjuna og segja að vorinu hafi verið frestað o.s.frv. ´
Mig langar líka að benda á að hvorki Kristín Þórunn eða Jón Helgi stóðu að tillögu 42 menninganna, en þau hafa bæði staði í stafni í baráttunni fyrir þessu máli. Þetta snýst nefninlega ekki síður um ákveðna taktík. Það var að mínum dómi fullkomið taktleysi að koma með þessa tillögu fram á þessum tímapunkti.
Varðandi það atriði hvar ég stend í þessu máli þá vísa ég í fyrsta lagi í lokaritgerð mína sem ber heitið: Hvar erum við nú stödd? Umræðan um hjónaband samkynhneigðra í kristnu samhengi við upphaf nýrrar aldar. Í titlinum nota ég "hjónaband samkynhneigðra" vísvitandi til þess að ögra. En þarna er ég ekki að koma með tillögu á prestastefnu og því horfið málið nokkuð öðruvísi við. Enda fékk ég aðvörunarorð frá þónokkrum prestum varðandi efnistökin og orðanotkun þegar ég var að vinna ritgerðina. Sumir gengu svo langt að segja að ég gæti aldrei orðið prestur í Þjóðkirkjunni finnst ég kysi að taka þetta mál fyrir. Staðreyndin er önnur, enda er það svo ótal margt annað sem ég stend fyrir sem prestur en þetta eina mál.
Guðmundur Örn Jónsson, 28.4.2007 kl. 19:36
Takk fyrir greinagott og heiðarlegt svar Örri. Við höfum vitað af þessari ályktun lengi. Hún er búin að vera í vinnu held í einhverja par mánuði og alltaf verið upp á borðinu. Nú þekki ég ekki hvenær tillaga PP kom upp en það hefur að öllum líkindum verið seinna en sú sem lengst vildi ganga. Mér finnst hér einnig spurning hvort að nógu mikill tími hafi verið gefinn til umræðna og hvort að hreinlega það hefði ekki átt að gefa meiri tíma miðað við, að vitað var af þessum þremur ályktunum með fyrirvara og það þarf svo sannarlega að ræða svona mál vel. Þannig að hér tel ég að ályktunin sem að lengst gekk hafi ekki spillt fyrir heldur að of knappur tími var til að ræða málin miðað við að þrjár álytkanir lágu fyrir.....það er alla vega mín tilfinning!
Ég held að menn ættu að forðast að lesa fordóma inn í orð Bjarna og Óskars. Að mínu viti hefur Bjarni ekki það álít á sínum kollegum enda um réttsýnan og góðan mann að ræða. Menn segja ýmislegt í vonbrigðum sínum og það gera hinir sem eru á móti líka þegar verið er að tala um þau sem vilja ganga langt. Þannig að þar er alltaf hægt að finna einvern sem að segir eitthvað og allir taka það inn á sig....Það er nú bara einhvern veginn eðli þessarar umræðu....
Titillinn á ritgerðinni þinni er áhugaverður og sannarlega ögrandi eins og orðalag títtnefndrar ályktunar.......hver var þín niðurstaða þar í þinni vinnu. Mér finnst það forvitnilegt hér í þessari umræðu þar sem að þú hefur kynnt þér og skoðað þessi mál að því virðist vel??
kkv. Sunna
Sunna Dóra Möller, 28.4.2007 kl. 19:55
Niðurstaða ritgerðar minnar snérist um það hvar málin væru stödd hér á landi, á norðurlöndunum, evrópu og í Bandaríkjunum. Niðurstaðan var að við erum komin hvað lengst í þessum málum hér á landi, sumstaðar er enn verið að deila um það hvort konur megi hljóta prestsvígslu. Ég komst líka að því að megin deiluefnið snýr að blessun yfir sambandi samkynhneigðra. Það mál er nú nánast til lykta leitt á Íslandi. Ég taldi og tel reyndar enn að þess sé ekki langt að bíða þar til eitt gengur yfir alla óháð kynhneigð.
Hins vegar fannst mér sr. Úlfar komast vel að orði þegar hann sagði auðvitað skipti máli þega kemur að hjónabandi að þar er um karl og konu að ræða, því karl og kona eru öðruvísi en karl og karl eða kona og kona. En hann sagði þetta ekki til að dreyfa umræðunni á dreyf, heldur til að leggja áherslu á sérleik hvers sambands. Hann talaði t.d. um "hommaband" "lesbíuband" og "hjónaband", en upphafleg tillaga að nöfnum á samböndunum kom þó ekki frá honum, og þetta var sagt með virðingu fyrir hverju sambandi. Honum eins og fleirum fannst fáránlegt að draga úr vægi kynjanna í umræðunni og gera þetta allt að einhverskonar hvorukynssamböndum. Sr. Úlfar tiheyrir eldri kynslóð presta, reyndar með þeim elstu, en hefur fyrir löngu gert upp hug sinn í þessu máli og náðum við góðu sambandi þarna fyrir norðan. Það kom hins vegar aldrei til greina hjá honum að skrifa undir ályktun 42 menninganna, einmitt vegna þess að honum fannst þeir þurrka út þann mun sem er vissulega á kynjunum (sem við hljótum öll að vera meðvituð um útfrá kynfærum kynfærum karla og kvenna, þó ekki væri annað)
Dr. Sigurjón Árni kom líka með góðan pistil um hin ólíku sambúðarform sem hver og einn gengur inní á lífsleiðinni, og lagði þau öll að jöfnu. Reyndar var ekki alltaf gott að átta sig á útskýringum hans á notkun lögmálsins í þessu sambandi.
Guðmundur Örn Jónsson, 28.4.2007 kl. 20:41
Þó vissulega hafi þetta verið vonbrigði er það rétt hjá þér Guðmundur að við stöndum mjög frama í þessum málum. Þó sárna manni að horfa á eftir þeim sem fóru og skráðu sig í annað trúfélag (sem telur sig vera frjálslyndara) í raun gegn vilja sínum, og þó ekki, því enginn vill vera þar sem hann ekki nýtur jafnréttis geti hann komist hjá því.
Ég hef þó trú á því að allt komi þetta með kaldavatninu í rólegheitunum og best sé að bíða og sjá hvað tíminn leiði í ljós -þó er engin ástæða til að sitja með hendur í skauti þangað til.
með kæri kveðju
Hildur Inga Rúnarsdóttir (IP-tala skráð) 28.4.2007 kl. 21:43
Rétt hjá þér Hildur það er engin ástæða til að sitja með hendur í skauti, enda er málinu alls ekki lokið. Biskup sagði sjálfur að hér væri ekki verið að setja punkt aftan við málið, heldur tvípunkt, og það er stór munur þar á. En það sem er mest um vert er að biskup veit að málinu er ekki lokið.
Guðmundur Örn Jónsson, 28.4.2007 kl. 21:54
Sammála!! Málið mun halda áfram og máli skiptir að geta átt heiðarlega og sanngjarna umræðu!
Áhugaverð ritgerð Örri. Maður ætti kannski einhvern tímann að gera sér ferð á safnið og skoða lokaritgerðir guðfræðinema......þar liggur örugglega fjársjóður sem enginn veit um.......svo ég tala nú ekki um alla klukkutímana sem fara þessu blessuð verkefnin og svo liggja þau bara óhreifð....
Sunna Dóra Möller, 28.4.2007 kl. 22:51
Þessu = í blessuð verkefnin...
Sunna Dóra Möller, 28.4.2007 kl. 22:52
Góð athugasemd hjá þér Sunna, lykilatriði í þessu máli er að fólk geti rætt saman af heiðarleika og sanngirni. Þeir sem ekki fylgja manni í skoðun eru auðvitað sannfærðir um að þeir séu á réttri leið, það ber að virða. Langar til að benda á fína vinkla inní alla þessa umræðu: sr. Svavar , Pétur Tyrfingsson, sr. Örn Bárð
Guðmundur Örn Jónsson, 29.4.2007 kl. 00:00
Nota bene. fordómar = fyrirfram gefna hugmyndir. Þeim er auðveldara að breyta af sjáfstæðum vilja og þeim sem teknar eru af þekkingu og vel upplýstum vijlja (ekki meint sem móðgun á neinn bara samkvæmt sálfræðunum). Eða eins og amma mín sáluga sagði; Það er allt hægt er viljinn er fyrir hendi
Hildur Inga Rúnarsdóttir (IP-tala skráð) 29.4.2007 kl. 04:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.