Sorgarfréttir
31.3.2007 | 22:45
Eins og dagurinn byrjaði vel. Ég var gríðarlega spenntur yfir því að standa sem prestur í Landakirkju og ferma myndarlegan hóp ungmenna. Það gekk allt saman vel og fór mjög farsællega, það var svo sem ekki von á öðru. Síðan tók við heilmikið rjómaterturallý, þar sem ég þeyttist á milli veislusala í bænum.
Það var síðan ekki fyrr en ég kom heim, undir kvöld, að ég sá hvað hafði gerst fyrr um daginn. Q.P.R. hafði tapað í eitt skelfilega skiptið enn. Þeir voru víst arfaslakir á heimavelli á móti West Brom. áttu bara 9 skot á markið á móti 17 hjá West Brom. Gamla brýnið Paul Furlong brenndi af víti, og skömmin var þar með fullkomnuð. Nú eru bara 3 stig í neðsta sætið. Já það getur verið erfitt að vera Q.P.R.-maður.
Að öðru, sem kætti mig síðan þegar líða fór á kvöldið. En það eru niðurstöður kosninganna í Hafnarfirði.
Rannveig Rist vill meina að kosningabaráttan í Hafnarfirði hafi verið "ójöfn". Hagur Hafnarjarðar hafi lítið fengið að komast að í fjölmiðlum. Að ýmsu leyti finnst mér þetta undarleg fullyrðing hjá henni. Ég veit ekki betur en að Alcan og Hagur Hafnarfjarðar hafi talað á sömu nótum, og því fer fjarri að Alcan hafi ekki komist að í umræðum fjölmiðla. Það hefði hins vegar verið ósanngjart ef bæði Alcan og Hagur Hafnarfjarðar hefðu hvort um sig fengið sama pláss í umræðunni og Sól í straumi.
Niðurstöður kosninganna (eins og allt stefnir í) eru þó ekki bara gleðilegar fyrir andstæðing stækkunar. Það sorglega við þessa niðurstöðu er að Hafnfirðingar skiptast í tvær andstæðar fylkingar sem eru nánast nákvæmlega jafn stórar. Ég er hræddur um að þessar kosningar gefi okkur mynd af því hvernig staðan er í landinu. Tvær nánast jafnstórar fylkingar sem takast á. Tvær þjóðir? Það er kannski of túlkun. En hitt er staðreynd, eins og Andri Snær benti á, að það eru ráðamenn (pólitíkusar) sem bera ábyrgð á þessum klofningi í samfélaginu. Sem reyndar birtist víðar: höfuðborgarsvæðið vs. landsbyggðin; konur vs. karlar; Bakkafjara vs. jarðgöng til Eyja. Og svona væri hægt að halda áfram.
En nú er komið nóg. Ferming aftur á morgun og áframhaldandi rjómaterturallý.
Athugasemdir
Farðu varlega í rjómaterturnar svo mæli ég með Liverpool
Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 11:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.