Sá sem á tvo kyrtla, gefi þeim, er engan á!
23.3.2007 | 16:44
Fyrirsögnin er sótt í orð Jóhannesar skírara og gefur okkur tilefni til þess að velta því fyrir okkur hvað það er sem mestu máli skiptir í lífi okkar.
Oft virðist mér sem einkunnarorð íslendinga megi finna í ljóði Ísaks Harðarsonar "Tilgangur lífsins":
Og ég - fíflið
barnið með bláu augun
sem hef leitað að sjálfum mér,
tilgangi lífsins, í heilan áratug
(sem þætti ekki langur tími
á sumum bæjum)
í trúarbrögðunum
skáldskapnum
dulspekinni
tilfinningunum
skynja loks, hve blindur ég hef verið
allan tímann
Því hann hefur alltaf blasað við
- Tilgangur lífsins -
Því hann hefur alltaf
verið þráðbeint framan við nös mína
hér og nú
Tilgangur lífsins!
Ekki þar, þá, eða annars staðar
heldur hér, nú, í hversdagsleikanum:
Hinn ynislegi, guðdómlegi
Tilgangur lífsins:
AUKINN HAGVÖXTUR!
Aukinn hagvöxtur kann að vera góður, svo langt sem hann nær - en hann nær alls ekki langt, þegar um raunveruleg lífsgæði er að ræða. Hugmyndin um að gefa þeim kirtil sem engan á, eða að heimta ekki meira en fyrir okkur er lagt, samræmast ekki hugmyndum um aukinn hagvöxt.
Aukinn hagvöxtur krefst þess að við séum sístritandi fyrir auknum lífsgæðum - sífellt að fórna dýrmætum tíma í aukna yfirvinnu á kostnað þeirra sem okkur þykir vænt um og standa okkur næst. Á kostnað þeirra sem ekki eiga kyrtil. Okkur ber auðvitað miklu frekar að bera góða ávexti, en ekki eintóma hagvexti.
Síðan má auðvitað velta því fyrir sér hvað hagvöxtur þýðir. Veit það nokkur maður fyrir víst. Eru barnsfæðingar ekki dæmi um aukinn hagvöxt, léleg ending bíla og heimilistækja þýða aukinn hagvöxt, því endingarleysi kallar á endurnýjun allra hluta. Aukinn hagvöxtur er líklega ekkert sérstakur vinur umhverfisins. - Eða hvað?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.