Nýtt skip til Eyja
15.3.2007 | 16:35
Það er stór dagur hér í Eyjum. Ný Vestmannaey VE 444 lagðist að bryggju áðan. Það var tignarlegt að sjá þrjú skip Bergs - Hugins sigla inn höfnina: Nýju Vestmannaey, gömlu Vestmannaey og Smáey.
Maggi Kristins fór þess á leit við mig að ég blessaði hið nýja skip og var það mér bæði ljúft og skylt. Þetta var góð stund þar sem allir viðstaddir fóru m.a. með gamla sjóferðarbæn sr. Odds V. Gíslasonar.
Það er nú ekki laust við að manni finnist maður eiga eitthvað í skipinu eftir svona athöfn, enda skiptir blessun skips miklu fyrir sjómenn.
Nú ríkir mikil bjartsýni hér í Eyjum eftir góða loðnuvertíð og nýtt skip. Þess má síðan geta að önnur tvö ný skip eru á leiðinni til Eyja á næstunni. Hér láta menn verkin tala og láta engan bilbug á sér finna, þó oft blási reyndar á móti.
Ég læt sjóferðarbæn sr. Odds fylgja hér með.
Sjóferðarbæn við blessun Vestmannaeyjar VE 444
Í nafni Guðs, föður, sonar og heilags anda.
Almáttugi Guð, ég þakka þér að þú hefur gefið mér líf
og heilsu svo að ég geti unnið mín störf í sveita míns andlits.
Drottinn minn og Guð minn. Þegar ég nú ræ til fiskveiða
og finn vanmátt minn og veikleika skipsins
gegn huldum kröftum lofts og lagar,
þá lyfti ég upp til þín augum trúar og vonar
og bið þig í Jesú nafni að leiða oss á djúpið,
blessa oss að vorum veiðum og vernda oss,
að vér aftur farsællega heim til vor náum
með þá björg, sem þér þóknast að gefa oss.
Blessa þú ástvini vora, og leyf oss að fagna aftur
samfundum, svo vér, fyrir heilags anda náð,
samhuga flytjum þér lof og þakkargjörð.
Ó, Drottinn, gef oss öllum góðar stundir,
skipi og mönnum í Jesú nafni. Amen.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:40 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.