Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ég vil, ég vil ekki, ég vil, ég vil ekki....

Það kom til mín maður og bað mig að taka að sér ákveðið verkefni. Ég svaraði strax NEI. Síðan ræddi ég málin við Gíslínu og dætur mínar og þá urðum við sammála um að það væri rétt að ég tæki að mér verkefnið. Ég setti mig aftur í samband við þennan mann. Nú eru liðnir tveir dagar og ekkert svar fæ ég frá manninum til baka. Þetta er óþolandi framkoma, ekkert kemur mér á óvart í þessu máli lengur.

Er þetta hátterni mitt réttlætanlegt?
Það myndi ég ekki segja. En einhvernvegin svona sýnist manni varaformaður Þórs á Akureyri haga sér skv. frétt Vikudags.
Forsagan er sú að Akureyrabær hefur átt í viðræðum við Þór um uppbyggingu frjálsíþróttaaðstöðu á Þórssvæðinu. Þeim hugmyndum var hafnað á aðalfundi félagsins, en almennur félagsfundur gaf síðan stjórninni umboð til þess að ganga til viðræðna við Akureyrarbæ.

Nú fussar Árni, varaformaður, og sveiar yfir því að bærinn hafi ekki enn svarað beiðni þeirra um viðræður um málið, sem þeir sjálfir höfðu þó áður hafnað.

Það er greinilega erfitt að gera það upp við sig hvort hér eigi að halda eða sleppa.


VG fjórfalda fylgi sitt í Suðurkjördæmi

Á forsíðu "Frétta" sem er vikublað okkar Eyjamanna er greint frá niðurstöðu skoðanakönnunar um fylgi stjórnmálaflokkanna. Það er að sjálfsögðu hið besta mál að niðurstöður slíkrar könnunnar, en þá verður fyrirsögnin að vera í samræmi við fréttina.

Að mínum dómi og flestra, ef ekki allra, sem ég hef talað við eru helstu tíðindin sú að VG fá, samkvæmt könnuninni, tvo kjördæmakjörna þingmenn, en höfðu engan áður, fara úr 5% í 17,4%. Næst stærstu tíðindin eru þau að Samfylkingin tapar tveimur þingmönnum, hafði fjóra, en fengi tvo. Sjallar bæta við sig einum, fá fjóra (Árni Johnsen kemur greinilega sterkur inn). Framsókn tapar öðrum sínum og aðrir fá engan.

Það sem mér finnst undarlegt við fyrirsögn fréttarinnar er að þeim á Fréttum þykja stærstu tíðindin vera að Sjallar fái fjóra menn og Samfylking tvo, í undirfyrirsögninni er síðan sagt að VG fái tvo og Framsókn einn. Ég held að menn hljóti að vera sammála um að stærsta fréttin er auðvitað sú að VG fái tvo þingmenn, jafnvel þó Sjálfstæðisflokkurinn eigi miklu fylgi að fagna hér í Eyjum.


Samkomulag um ekki neitt?

handabandHugmyndir flokkanna um eyðslu í auglýsingar tengjast auðvitað fylgi þeirra. Þannig að þeir sem minnst fylgi haf vilja eyða mestu, enda bjargaði Framsókn sér í síðustu kosningum með miklum auglýsingum.

Hins vegar held ég að hér sé bara um einhverskonar gervisamkomulag að ræða ef ekkert þak verður sett á landshlutafjölmiðlum. Þá þýðir þetta samkomulag í raun bara takmörkun á auglýsingar í hluta af fjölmiðlum. Þannig að þessi upphæð kemur til með að verða notuð í þágu Reykjavíkurlistanna, nema t.d. Vesturbæjarblaðið sé skilgreint sem landshlutablað, og K.R. útvarpið landshlutaútvarp. Í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það, þar sem það næst bara á höfuðborgarsvæðinu (held það sé rétt hjá mér)

Já menn eiga eftir að toga og teygja þetta samkomulag í allar áttir, alveg eins og hverjum hentar. Niðurstaðan verður sú að það verður auglýst sem aldrei fyrr í Fréttum í Vestmannaeyjum, Skessuhorninu og fleiri góðum blöðum, gott ef það væri ekki markaður fyrir héraðsfréttablöðin til að gefa út fullt af aukablöðum, sem væru troðfull af auglýsingum frá stjórnmálaflokkunum.


mbl.is Auglýsingakostnaður stjórnmálaflokkanna takmarkaður við 28 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðlendumál

Ég ætla rétt að vona að ríkið hætti þessari vitleysu sem er í gangi í kringum þjóðlendumálið allt saman.

Það er með ólíkindum að þinglýstir kaupsamningar á landi sem gerðir hafa verið skuli ekki vera teknir gildir, eins og hefur gerst á mörgum stöðum.

Þetta mál er þannig að allt snýr á haus. Sönnunarbyrðin er ekki hjá ríkinu, heldur landeigendum.

Hvað ef það kæmi hér aðili sem héldi því fram að hann ætti alla gráa bíla sem eru í umferð í landinu, og í framhaldi myndi hann stefna öllum bíleigendum grárra bíla. Þá þyrfti ég væntanlega að sanna að ég ætti minn gráa bíl fyrir dómi, og leggja útí lögfræðikostnað samfara því. Ef ég hefði gefið einhverjum umboð til þess að skrifa undir kaupsamninginn á bílnum, þá þyrfti ég að grafa upp þetta umboð (sem auðvitað er löngu týnt), að öðrum kosti myndi viðkomandi hirða bílinn.

Þetta er staðan sem landeigendur eru í, það er jafnvel farið aftur í aldagamla kaupsamninga og landamerkjaskipti sem allir eru löngu hættir að taka mið af, enda margir kaupsamningar síðan þeir voru í gildi.

Það er hrein skömm að þessu þjóðlendumáli, og það er alþingi til skammar að hafa hleypt þessum í gegn með þeim hætti sem gert var. Og þær afsakanir sem þingmenn og ráðherrar hafa haft uppi, um að þessi lög séu í praxís allt örðru vísi en þeir reiknuðu með, eru lítils virði. Alþingismenn eru hópur fólks sem er í vinnu við að setja lög og reglur í samfélaginu, þannig að almenningur ætti að geta farið fram á einhverja lágmarks kunnáttu á því sviði.

Hver er hinn raunverulegi tilgangur þjóðlendulaganna?  Spyr sá sem ekki veit. 

 


mbl.is Þjóðlendudómi ekki áfrýjað til Hæstaréttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt skip til Eyja

Það er stór dagur hér í Eyjum. Ný Vestmannaey VE 444 lagðist að bryggju áðan. Það var tignarlegt að sjá þrjú skip Bergs - Hugins sigla inn höfnina: Nýju Vestmannaey, gömlu Vestmannaey og Smáey.

Maggi Kristins fór þess á leit við mig að ég blessaði hið nýja skip og var það mér bæði ljúft og skylt. Þetta var góð stund þar sem allir viðstaddir fóru m.a. með gamla sjóferðarbæn sr. Odds V. Gíslasonar.

Það er nú ekki laust við að manni finnist maður eiga eitthvað í skipinu eftir svona athöfn, enda skiptir blessun skips miklu fyrir sjómenn.

Nú ríkir mikil bjartsýni hér í Eyjum eftir góða loðnuvertíð og nýtt skip. Þess má síðan geta að önnur tvö ný skip eru á leiðinni til Eyja á næstunni.  Hér láta menn verkin tala og láta engan bilbug á sér finna, þó oft blási reyndar á móti.vestmannaey VE 444

Ég læt sjóferðarbæn sr. Odds fylgja hér með.

 

 

 

Sjóferðarbæn við blessun Vestmannaeyjar VE 444   

Í nafni Guðs, föður, sonar og heilags anda.

Almáttugi Guð, ég þakka þér að þú hefur gefið mér líf

og heilsu svo að ég geti unnið mín störf í sveita míns andlits.

 

Drottinn minn og Guð minn. Þegar ég nú ræ til fiskveiða

og finn vanmátt minn og veikleika skipsins

gegn huldum kröftum lofts og lagar,

þá lyfti ég upp til þín augum trúar og vonar

og bið þig í Jesú nafni að leiða oss á djúpið,

blessa oss að vorum veiðum og vernda oss,

að vér aftur farsællega heim til vor náum

með þá björg, sem þér þóknast að gefa oss.

 

Blessa þú ástvini vora, og leyf oss að fagna aftur

samfundum, svo vér, fyrir heilags anda náð,

samhuga flytjum þér lof og þakkargjörð.

 

Ó, Drottinn, gef oss öllum góðar stundir,

skipi og mönnum í Jesú nafni. Amen.

 


Græðgi á græðgi ofan

Mér þótti merkileg ummæli Björgúlfs (yngri) um daginn þegar hann hótaði því að fara með alla starfsemi Straums - Burðarás úr landi ef þeir fengju ekki að gera upp í evrum, eða hvaða gjaldmiðli svo sem þeim hentar. 

Maður hlítur að velta fyrir sér ábyrgð þessara miklu peningamanna í samfélaginu.  Ekki urðu þeir svona ríkir af sjálfu sér.  Ó nei, þeirra ríkidæmi varð til í ákveðnu samhengi, í ákveðnu samfélagi, við ákveðnar aðstæður.  Ábyrgð þeirra er mikil, og að hóta því að fara með allt úr landi, ef menn standa ekki eða sitja eins og þeir vilja, er ábyrgðarlaus talsmáti og í hæsta máta undarlegur.  Það er eins og hvert annað kjaftæði að halda því fram að fyrirtæki standi á heljarþröm ef þau fá ekki að gera upp í evrum, það sjáum við öll ef afkomutölur eru skoðaðar.

Þessi miljarða fyrirtæki bera mikla samfélagslega ábyrgð, því það er almenningur sem hefur í raun skapað þennan mikla gróða, án almennings eru þessi fyrirtæki ekki neitt.

Sennilega eiga orð Mahatma Gandhis vel við miljarðamæringa sem svona tala: "Heimurinn hefur nóg til að fullnægja þörfum manna en ekki græðgi þeirra."


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband