Þjóðvegi lokað
30.11.2007 | 10:01
Það er svolítið merkilegt að upplifa það að þjóðvegurinn milli lands og Eyja skuli trekk oní trekk vera lokaður vegna bilunar. Í næstu viku er fyrirsjáanlegt að þjóðvegurinn verði alveg lokaður í a.m.k. tvo daga á meðan Herjólfur fer í slipp. Ferðir sem eiga að taka 2 klukkutíma og 45 mín. hafa tekið 6 klukkutíma. Þetta er nú varla boðlegt, ekki síst í ljósi þess að Eyjamenn hafa lengi kallað eftir nýjum Herjólfi því þessi er löngu kominn á tíma. Það er sama inní hvaða bekk í barnaskólanum hér í Eyjum er farið, öll börn vita að kominn er tími á nýjan Herjólf.
En þetta virðast þeir sem eiga að halda þjóðveginum gangandi ekki vita.
Ég heyrði umræður um samgöngumál á kaffistofu hér í bæ og þar kom einmitt fram að margir höfuðborgarbúar hafa sagt við Eyjamenn að þeim sé nógu gott að búa við þær samgöngur sem þeir nú búa við. Eyjamenn hafa sjálfir valið að búa á þessari eyju. Einn kaffispjallari sagðist vera farinn að svara höfuðborgarbúum, sem kvarta undan umferðarþunga í borginni, með þeim orðum að viðkomandi hafi sjálfur valið að búa í borginni og eigi þess vegna að gera sér umferðarhnúta og tafir að góðu.
Ef til vill er kominn tími til að við reynum enn betur að setja okkur í spor annarra, líka hvað samgöngur varðar. Allir staðir hafa eitthvað sem gerir það að verkum að fólk vill búa þar, og það á auðvitað að gera fólki kleift með góðum ráðum og lausnum að búa þar sem það helst kýs, á þann hátt að því líði sem best, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.
Herjólfi seinkar vegna bilunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Ferðalög, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já þetta er frekar pirrandi til lengdar. En þegar höfuðborgarbúar segja, " ja, þið völduð þetta að búa þarna" Þá er ekki þar með sagt að hlutirnir eigi að vera svona. Samgöngurnar eiga að vera í lagi í dag og það eru léleg rök að koma með svona tal.
Guðmundur Arnar Guðmundsson, 30.11.2007 kl. 14:52
Ég hélt því einhverntíman fram á blogginu mínu að við Eyjamenn ættum von á nýjum Herjólfi, göngum og Bakkafjöru, allt á sama tíma. Þessu hélt ég nú reyndar fram eftir að hafa hlustað á frambjóðendur allra flokka hér í kjördæminu fyrir kosningar.
Hvað gerist svo eftir kosningar? Allt gleymt, enginn kannast við að hafa sagt eitthvað um samgöngumál Eyjamanna, og kannast jafnvel ekki við að hafa komið til Vestmannaeyja, og enn aðrir spyrja líklega: "Vestmannaeyjar hvað?"
Guðmundur Örn Jónsson, 30.11.2007 kl. 18:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.