34 ár frá goslokum í Eyjum

EldgosÍ dag eru 34 ár frá því að opinberum goslokum var lýst yfir í Eyjum.  Það var 23. janúar 1973 sem eldgos hófs í Heimaey, skammt frá Kirkjubæjunum.  Tveir menn (Hjálmar Guðnason og Ólafur Gränz) sem voru á gangi um nóttina uppá Helgafell sáu jörðina hreinlega opnast fyrir augum sér. Þannig að opinberlega séð þá voru það þessi tveir sem urðu fyrstir varir við gosið. 

Ég hef spjallað við marga Eyjamenn um þennan tíma eftir að ég kom hingað til Eyja og sögur þeirra eru hreint út sagt sláandi.  En ég hef líka komist að því að þriðji aðilinn varð líka vitni að upphafi gossins.  Það var kona, Inga Jóhann Halldórsdóttir, að nafni(ekkjan hans Hjölla múr).  Hún hafði verið að sýsla fram eftir ásamt vinkonu sinni Fríðu í Bólstaðarhlíð.  Þegar Inga kom heim og var að hafa sig í háttinn þá finnur hún þessa skjálfta sem voru undanfarar gossins.  Hún horfir síðan út um gluggann í átt að Kirkjubæjunum og sér þá hvernig jörðin hreinlega opnast og eldspýjurnar standa uppí loftið og nánast um leið opnast jörðin öll eins og rennilás.  Hún vekur mann sinn og börn, hringir uppá Kirkjubæina og síðan í lögregluna.

Austurbærinn 24. janúar 1973Af sinni einskæru hógværð þá ákvað Inga að hafa sig ekki í frami við fjölmiðla, því það væru áreiðanlega aðrir sem væru betur til þess fallnir en hún, og þess vegna er það opinber söguskoðun að einungis tveir hafi verið vitni að upphafi gossins. 

Annars er goslokahátíðin haldin hér í Eyjum með pompi og prakt og fólk gerir sér dagamun.  M.a. verður haldin Göngumessa sem hefst í Landakirkju þaðan er gengið uppá Eldfell, þar sem minnisvarði um goslokin stendur og göngumessunni lýkur síðan í Stafkirkjunni, en þar verður síðan boðið uppá súpu og fínerí á Stafkirkjulóðinni. 

Ég komst að því að upphafs gossins er einnig minnst á a.m.k. einu heimili hér í Eyjum, en það er hjá henni Marý á Kirkjubæ.  Þá býður Marý uppá kaffi og fínerí og síðan er gítarspil og fjöldasöngur frameftir kvöldi.  En Kirkjubæirnir stóðu alveg við gossprunguna og fóru strax undir hraun. 

Það er gaman að kíkja inná vefinn Heimaslóð.is þar sem ýmiskonar fróðleik er að finna um gosið og hvað eina annað sem tengist vestmannaeyjum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Högni Hilmisson

já hér hefurðu stiklað á stóru. Fyrsta útvarpsfréttin eða viðtal við vestmannaeyinga þessa nótt, var við Öldu Björnsdóttur á Tungötu 22. viðtalinu stýrði Geyr Kristinnsen þá verandi magnaravörður, hjá Ríkisútvarpinu. Í því samtali, má heyra þigar vikufallið byrjaði og buldi á húsþökunum.  En Hilmir maður Öldu fór út í dyr að kanna málið , en sagði um leið " þetta er bara rigning,  einungis til að halda öllum í ró. En Alda getur sagt frá mjög skýrum draumum sínum, sem beinlínis voru fyrir gosinu 1973.  gott að heyra nýja vitnisburði  eins þessa.

Högni Hilmisson, 5.7.2007 kl. 21:44

2 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Sammála þér Högni, það er alltaf gaman að heyra í fólkinu sem var á staðnum, og allt þetta er svo sannarlega nýtt fyrir afdalamann að norðan.  Ég held að fólk almennt geri sér varla grein fyrir því skelfilega ástandi sem hér var og þvílík Guðs mildi það var að gosið átti ekki upptök sín í miðri byggð.

Guðmundur Örn Jónsson, 6.7.2007 kl. 00:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband