Lúther og hjónabandið

weddingMér er hjónabandið nokkuð hugleikið um þessar mundir, þar sem við Gíslína ætlum að gifta okkur 8. sept. auk þess sem hér var brúðkaupssýning í Eyjum um daginn, og "brúðkaupstímabilið" er að hefjast. Þess vegna þótti mér nokkuð forvitnilegt að sjá hvað Lúther gamli hafði um málið að segja.

Í riti Lúthers, frá árinu 1522, fjallar hann um hjónabandið vítt og breitt, þar gagnrýnir hann m.a. skilyrði þau sem kaþólska kirkjan setur fyrir því að fólk gangi í hjónaband, sem honum finnst vera komin út fyrir öll velsæmismörk.  Hann tekur dæmi um að kaþólska kirkjan banni fólki að giftast sem hefur til að mynda framið morð, eða aðra alvarlega glæpi. 

Þetta telur Lúther vera í hrópandi ósamræmi við ritninguna.  Þó vissulega eigi að refsa fólki fyrir morð, þá kemur það hjónabandinu ekki á neinn hátt við, og hér bendir hann á söguna af Davíð og Batsebu, sem eignuðust Salómon.

 

Þar sem hjónabandið er ekki sakramenti skv. Lúther þá hefur fólk fulla heimild til skilnaðar, þó vissulega verði að liggja ákveðnar ástæður þar að baki.  Hann talar um þrjár megin ástæður fyrir hjónaskilnaði:

 

wedding31) ef annar aðilinn er ekki hæfur til hjónabands vegna líkamlegra eða andlegra krankleika 2) vegna framhjáhalds 3) vegna þess að annar aðilinn hefur ekki uppfyllt skyldur sínar í hjónabandinu, bæði líkamlegar, og ekki síður andlegar (tillitsleysi, óbilgirni og fleira þess háttar).

 

Í þessu riti vitnar Lúther til sköpunarsögunnar þar sem segir: „verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina”.  Hann segir það vera í eðli manneskjunnar að margfaldast og einnig skylda karls og konu.  Manneskjan getur ekki barist gegn því eðli sem henni er ásköpuð, á sama hátt og karl getur ekki sagst vera kona, því við erum öll sköpuð og steypt í ákveðin mót. 

Lúther leggur áherslu á að það sé í hæsta máta óeðlilegt að fólk velji sér einlífi, því það stríðir algjörlega gegn eðli manneskjunnar.  Að mati Lúther getur einlífi presta, nunna og munka ekki leitt annað af sér en syndsamlegt líferni í formi öfuguggaháttar og þess vegna eiga þau sem hafa gengist undir þess konar heit að snúa blaði sínu við, öðruvísi verða þau ekki heilar manneskjur.

 

Í prédikun sem Lúther flutti um hjónabandið segir hann að þegar fólk gengur í hjónaband sé nóg að fólk segi við hvort annað: „ég er þinn og þú ert mín”.    „Læknarnir”, þ.e. guðfræðingar kaþólsku kirkjunnar, segja að hjónabandið sé leið til að geta af sér afkvæmi og einmitt það ýti undir sakramentisskilninginn á hjónabandinu. 

wedding7Þetta segir Lúter vera misskilning, þó vissulega sé hjónabandið hentugur vettvangur fyrir barneignir, en þeir sem ekki eru kristnir geta líka af sér börn í hjónabandi og ekki er það sakramenti hjá þeim.  Það eru ekki barneignirnar sem skipta máli, að mati Lúthers, heldur uppeldið á börnunum, því almennilegt kristið uppeldi á börnum er stysta leiðin til himna. 

 

Í ritinu Babýlóníu herleiðing kirkjunnar segir Lúther að hjónabandinu innan kaþólsku kirkjunnar hafi verið snúið upp í farsa og það sé hreint guðlast að halda því fram að það sé sakramenti sem hafi eitthvað með sáluhjálp að gera.  Hann segir að þess sé hvergi getið í Nýja testamentinu að fólk sem gengur í hjónaband hljóti sérstaka náð frá Guði.  Og hann fullyrðir að þess sé ekki einu sinni getið í biblíunni að Guð hafi stofnað hjónabandið.  Hjónaband tíðkist jafnt hjá kristnu fólki sem heiðnu og það sé ekki hægt að sjá að hjónabandið sé eitthvað heilagra hjá hinu kristna fólki. 

 

Hvers vegna er þá talað um það sem sakramenti?  Lúther vill meina að kaþólikkarnir byggi sakramentisskilning sinn á hjónabandinu fyrst og fremst á stórum misskilningi, því þar sem Vulgata, hin opinbera latneska þýðing biblíunnar, talar um „sacramentum” þar stendur skýrum stöfum í gríska frum-textanum „mysterium” (sem útleggst sem leyndardómur).  Kaþólska kirkjan hefur snúið út úr ritningunni og fengið út það sem henni hentar, nefnilega að hjónabandið sé sakramenti sem Guð hafi stofnað.  Þetta segir Lúther ekki vera satt því hjónabandið sé fyrst og fremst mannanna verk sem hefur sína kosti og galla eins og öll önnur mannanna verk. 

wedding6Hér gagnrýnir Lúther enn einu sinni öll þau skilyrði sem kaþólska kirkjan setur fólki sem vill ganga í hjónaband.  Hann spyr hver hafi gefið mönnum það vald að banna einum en leyfa öðrum að ganga í hjónaband, ef slíkt á að viðgangast verði menn að finna rök fyrir máli sínu í ritningunni, annað eru tómir duttlungar kreddufullra manna.  „Af hverju ætti hamingja mín að byggjast á kreddum annarra?”, spyr Lúther að lokum.

Eins og sjá má þá hættir Lúther svolítið til að mála það sem hann vill koma á framfæri með sterkum litum, og það er greinilegt að margt af því er ekki sett fram til þess að ná einhvers konar málamiðlun.  Enda bendir Lúther á að hjónabandið hafi fylgt manninum löngu áður en nokkur varð kristin manneskja og þess vegna er hér ekki um einkamál kirkjunnar að ræða.  Hér er um félagslegan atburð að ræða sem skiptir þá einstaklinga fyrst og fremst máli sem ganga í hjónaband.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Góður pistill hjá þér og takk fyrir hann. En varðandi það að karl getur ekki sagst vera kona eins og Lúther sagði, þá stenst það kannski ekki tímans tönn, því það er til fólk eins og allir vita sem finnst það vera í röngum líkama  en það er svo önnur saga.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 31.5.2007 kl. 23:19

2 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Þetta er alveg rétt hjá þér Margrét. En hugmyndin sjálfs snýst um að við erum sköpuð á ákveðin hátt og getum ekki flúið eðli okkar. Þannig að samkynhneigðir eru samkynhneigðir, gagnkynhneigðir eru gagnkynhneigðir o.s.frv. Við erum nefnilega misjafnlega af Guði gerð.

Guðmundur Örn Jónsson, 1.6.2007 kl. 09:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband