Ekkert álver í Vestmannaeyjum
13.5.2007 | 22:57
Ég verð að játa að mér fannst þessi krafa Steingríms Joð ótrúlega kauðaleg, alveg jafn kauðaleg og viðbrögð Jóns Sig þegar hann sagðist bara alls ekki kannast við neinar árásir Framsóknarmanna á Steingrím. Það var engu líkara en Jón hefði ekki séð auglýsinguna, eða ekki verið með gleraugun á nefinu þegar þær voru sýndar, því engum dylst að í herferð Framsóknar er verið að vísa í títtnefndan Steingrím Joð. Jafnvel þó auglýsingin hafi bæði verið ósmekkleg og leiðinleg þá finnst mér þetta þó helst til mikið upphlaup hjá formanni VG. Niðurstaðan er jafntefli í kauðaskap.
Annars er ástæða til að óska VG til hamingju með stórsigur. Þetta er eini flokkurinn sem bætir raunverulega við fylgi sitt. Sjálfstæðismenn eru komnir á sínar slóðir með fylgi sitt, og svosem engin stór tíðindi þó fylgið sé meira en í síðustu kosningum, því það var nánast í sögulegu lágmarki (þó þeir hafi vissulega farið neðar áður). Samfylking tapar, Framsókn "skít-tapar", Frjálslyndir standa í stað og I-listi er eins og hann er. Ég neita því ekki að það voru allnokkur vonbrigði að ríkisstjórnin skyldi halda velli, en það þýðir ekki að gráta Björn bónda.
Hins vegar held ég að skilaboð fólksins í landinu séu skýr: EKKI meiri virkjanaframkvæmdir (a.m.k. ekki í bili) því Framsókn er holdgervingur stóriðjustefnunnar, það er Sjálfstæðisflokkurinn ekki þó þeir hafi setið í ríkisstjórn líka á þessum mestu virkjana tímum sögunnar. Auglýsingar Framsóknar vísa beint í áframhaldandi stóriðjuáform þeirra, þegar þeir tala um "að halda áfram á sömu braut", því Framsókn virðist ekki hafa hugmyndaflug til þess að koma fram með aðrar lausnir en álver við hvert fótmál. Fólki blöskrar útsala á raforku til erlendra stórfyrirtækja.
Ég lýsi því hér með yfir, og legg höfuð að veði, að í Vestmannaeyjum verður aldrei ráðist í byggingu álvers. Já það er sem ég segi það er gott að búa í Vestmannaeyjum, og því hvet ég umhverfisverndarsinna og náttúru-unnendur til þess að flykkjast til hinna fögru Vestmannaeyja.
(Myndin er af sólarlagi í Vestmanneyjum og er tekin út um stofugluggan á prestssetinu)
Steingrímur krefur Jón um afsökunarbeiðni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.