Pönkið lifir
29.3.2007 | 23:51
Ég var ekki mikill aðdáandi hinnar steingeldu 80's tónlistar sem tröllríður öllu á Bylgjunni, ég var heldur ekki mikill þungarokkari ég var alltaf meira svag fyrir pönkið, þar þurftu menn svosem ekki að kunna mikið til þess að vera í hljómsveitum.
Ég man að á námsárum mínum í VMA þá komu nokkrir nemendur úr skólanum í íbúðarkytruna sem ég og frændi minn bjuggum í og föluðust eftir raddböndum mínum í hljómsveit. Í þessari heimsókn tjáðu þeir mér að hljómsveitin yrði hrá rokkhljómsveit, jafnvel pönk-band. Ég þekktist boðið og æfingar hófust. Eitthvað vorum við ekki sammála um skilninginn á því hvað pönk væri, mér þóttu þeir heldur vandvirkir og þeim þótti ég heldur óvandaður. Eins og sönnum pönkara sæmdi þá tók ég þann pólinn í hæðina að stressa mig ekki of mikið á æfingunum, og var kannski ekki alltaf samvinnuþýður þegar ég mætti.
Dag einn frétti ég að hljómsveitin "mín" hefði tekið þátt í hljómsveitakeppni, án minnar þátttöku. En eins og það væri ekki nóg svekkelsi, þá unnu þeir keppnina. Mér var umsvifalaust sagt upp störfum og þeir héldu áfram í veikri von um að slá í gegn með vönduðum söng án feilnóta í undirspilinu.
Ekkert varð af meikinu stóra hjá fyrrum félögum. Í dag eru tveir þeirra sjómenn og einn er rafvirki, en ég er prestur og syng einsöng fyrir fólk á sunnudögum í Landakirkju.
Athugasemdir
Sæll Örri!
Ég gleðst fyrir þína hönd að fá að pönkast í Vestmanneyingum, til hamingju með það.
Sigríður Gunnarsdóttir, 30.3.2007 kl. 12:21
Þetta er doldið kaldhæðnislegt. En svona er lífið og ég bíð spenntur eftir því að heyra í þér "pönkast" í kirkjunni.
Guðmundur Arnar Guðmundsson, 30.3.2007 kl. 15:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.