Enn eitt stjórnmálaaflið sem ætlar að slá í gegn
29.3.2007 | 16:05
Það halda bókstaflega allir að þeir geti komist á þing. Nú er greint frá því á rúv að "Baráttusamtökin" ætli að bjóða fram, og þeirra helsta mál er að koma Reykjavíkurflugvelli úr miðbænum og bæta stöðu aldraðra og öryrkja.
Ég er alveg sáttur við að samtök berjist fyrir bættri stöðu aldraðra og öryrkja, en síður með að flugvellinum verði bolað úr borginni. Það er slæmt fyrir flugsamöngur í landinu og það er slæmt fyrir landsbyggðina. Að fara með flugvöllin úr Vatnsmýrinni er ekkert annað en að ryðja vandamáli á undan sér. Hvert á flugvöllurinn að fara? Til Keflavíkur? Á landfyllingu?
Ef flugvöllurinn fer til Keflavíkur þá er það klárt að þjónustan við landsbyggðina skerðist. Fólk á erindi í höfuðborgina, þar sem öll þjónusta er fyrir hendi og stjórnsýslan. Það er undarlegt að höfuðborgarsamtök sem þessi skuli ekki finna til þeirrar ábyrgðar sem felst í því að búa í borg.
Hvaða lausnir ætla þessi samtök að koma með til að koma til móts við landsbyggðina? Eða er þeim kannski alveg sama?
Það væri kannski vitið að skella eins og einu álveri niður í Vatnsmýrinni. Það er alls ekki svo vitlaus hugmynd. Það er fátt fallegra en umhverfisvænt álver í miðbænum.
Annars held ég svei mér þá að þetta flugvallarmál sé orðið frekar þreytt. Það nennir varla nokkur maður að tala um þessa endaleysu lengur. Svo hvað er ég að derra mig?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.