Pólitískar embættisveitingar gagnrýndar

stjornmalaflokkar_islandsFlutningsskyldir starfsmenn í utanríkisþjónustunni hafa ritað utanríkisráðherra bréf þar sem pólitískar embættisveitingar eru gagnrýndar. Mest virðist vera um pólitískar ráðningar í utanríkisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar, Davíðs Oddsonar og Geirs H. Haarde.

Í sjálfu sér kemur það manni ekki á óvart að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn skuli halda sig á þessari línu. Það hefur jú alltaf borgað sig að tilheyra einhverskonar pólitískum klíkum. En þessi mál eru því miður ekki bara bundin við utanríkisþjónustuna, það muna líklega allir eftir því þegar frændi Davíðs var skipaður hæstaréttardómari, og eins Jón Steinar Gunnlaugsson.

Fólk sér í gegnum svona mál og hið sama má segja með Seðlabankastjórana. Það er alveg dæmalaus tilviljun að það skuli einmitt vera pólitíkusar sem ævinlega skuli henta best í þessi störf, og eins að það skuli ævinlega vanta Seðlabankastjóra þegar ákveðnir aðilar hætta á þingi.

Það sorglega er að þetta er ekki einskorðað við þessa tvo flokka. Stundum virðist manni sem þingmenn tapi sannfæringu sinni þegar þeir komast inná þing, manni dettur eftirlauna frumvarpið í hug í þessu sambandi. Þar voru nánast allir þingmenn sannfærðir um ágæti þess frumvarps, alveg þangað til í ljós kom að þjóðinni blöskraði (og þegar málið komst í fjölmiðla).

Ég er ekkert endilega viss um að pólitískar ráðningar komi til með að minnka eða aukast þó nýtt fólk og nýir flokkar komist í bílstjórasætið. Þeim verður alltaf hyglað sem eru góðir og hollir flokksmenn. Einhvernvegin finnst manni eins og fólk sé bara almennt hætt að kippa sér upp við þessar pólitísku ráðningar og sætti sig einfaldlega við það ástand sem hér er.

Það er athyglisvert að bera saman hvað það er sem viðgengst í þessum málum hér á landi miðað við annarsstaðar í hinum vestræna heimi, þó aðrar þjóðir séu því miður ekki heldur lausar við þessi vinnubrögð. En svo skal böl bæta og benda á eitthvað annað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband