Góð grein Andra Snæs

Hún er góð greini sem félagi minn Andri Snær skrifaði í Moggan í gær (1. sept.)  Ég er svo hjartanlega sammál honum, að ég leyfi mér að birta hana alla svo þú getir líka notið hennar.

Hvenær er komið nóg?

 

Eftir Andra Snæ Magnason

 Andri Snær Magnason Eftir Andra Snæ Magnason: "Getur ritstjórn Morgunblaðsins útskýrt fyrir lesendum hvenær skuldin við iðnaðinn er greidd?"  

Morgunblaðið birti ritstjórnargrein þann 19. ágúst þar sem orðið ,,hræsni“ kemur fyrir í fyrirsögn ásamt mynd af söngkonunni Björk. Orðrétt segir: ,,Björk sé á móti álverum. Samt byggist vinna hennar meðal annars á því að ferðast á milli landa með flugvélum, sem eru smíðaðar úr áli, og syngja fyrir fólk. Það eru ekki bara flugvélarnar sem eru smíðaðar úr áli heldur einnig geisladiskarnir sem Björk setur tónlist sína á og selur í bílförmum um allan heim.“ Klykkt er út með eftirfarandi áminningu: ,,Eru allir andstæðingar álvera samkvæmir sjálfum sér?“

 
Eftir að hafa fylgst með þessari umræðu í nokkur ár er ekki laust við að manni fallist hendur. Flestir Íslendingar ferðast í flugvélum og kaupa geisladiska. Er íslensk náttúruverndarbarátta þá siðferðilega röng og byggð á hræsni og vanþekkingu? Eru skilaboðin þau að hræsnarar sem nota álflugvélar geti sjálfum sér um kennt þegar tvö eða þrjú álver verða byggð til viðbótar á næstu árum?  Þar sem þessi viðhorf heyrast einnig frá þingmönnum, ráðherrum og bloggsíðum þá skulum við taka þetta alvarlega. Hvaða tölfræði leggur ritstjórn Morgunblaðsins til grundvallar með þessari vægast sagt dónalegu framsetningu – ,,hræsnari“ er eitthvað ljótasta orð sem er hægt að nota um manneskju. Ef ritstjórn hefði gefið sér tíma til að lesa sitt eigið blað hefði hún fundið nýlega grein eftir Björk þar sem hún segist alls ekki vera á móti álverum heldur einfaldlega að nú sé komið nóg og tími kominn til að búa eitthvað til úr álinu í stað þess að flytja óunnið úr landi. En hvenær hættir maður að vera hræsnari, hvenær má segja: Nóg komið? Var Straumsvík ekki nóg? Og var Grundartangi ekki nóg? Og voru Alcoa og Kárahnjúkavirkjun ekki nóg? Nú vill ríkisstjórn tvöfalda umfang þungaiðnaðar með Húsavík og Helguvík. Verður það nóg? Þurfa flugvélar svona mikið ál? Meðal farþegaþota vegur u.þ.b. 50 tonn. Flugfloti Icelandair vegur u.þ.b. 1000 tonn. Flugvélar má endurvinna en burtséð frá því er ,,endurnýjunarþörf“ flotans innan við 50 tonn á ári. Á Íslandi eru á hverju ári framleidd 700.000 tonn af áli. Það þýðir að á hverju ári framleiðum ,,við“ 14.000 sinnum meira en flug á Íslandi krefst. Þannig að ef við hugsum eingöngu um flug þá gætu Íslendingar flogið næstu 14.000 árin bara með því áli sem var framleitt árið 2008. Við gætum flogið í einnota flugvélum án þess að ganga á forðann.  

Farþegaflugfloti Bandaríkjanna vegur u.þ.b. 200.000 tonn. Við gætum endurnýjað flugflota USA, Evrópu og Kína á hverju ári en þess þarf auðvitað ekki. Á hverju ári fara milljón tonn af gos- og bjórdósum á ruslahaugana í Bandaríkjunum. Þeir henda meira en fjórföldum flugflotanum – á hverju einasta ári. Getur verið að ál sé of mikið notað – málmurinn of ódýr og þess vegna hent í gríðarlegu magni? Umbúðir verða að rusli í þúsund sinnum meira magni en tónlistariðnaður notar í geisladiska. Getur ritstjórn Morgunblaðsins útskýrt fyrir lesendum hvenær skuldin við iðnaðinn er greidd? Hvenær menn verða loksins ,,samkvæmir sjálfum sér“? Er það þegar við bræðum 20.000 sinnum meira en flugið krefst? Var ekki Straumsvík nóg? Vill ritstjórnin standa við þessi orð – að Björk sé hræsnari og ósamkvæm sjálfri sér eða var blaðið að höfða til lægri hvata og fordóma lesenda sinna? En í hvaða tilgangi?  

Áróðurinn dynur daglega og nær svo langt að Íslendingar eru farnir að halda að allt sé ál sem gljáir. Margir halda að bílar séu að mestu leyti úr áli. En ál er aðeins um 3% af málmframleiðslu heimsins, 95% er stál. Hér heima er ekkert stállobbý og afleiðingin er heilaþvottur sem verður alveg sérstakt rannsóknarefni í framtíðinni. Í heiminum eru árlega framleiddir 1,4 milljarðar tonna af stáli en aðeins um 40 milljón tonn af áli. Stál er og verður mikilvægasti málmur mannkyns – Ólympíuleikvangurinn í Kína er hreiður ofið úr stáli, skipafloti okkar er úr stáli, brýr, járnbrautir og hrærivélar eru úr stáli. Hér skrifa vel mataðir bæjarstjórar eins og Árni Sigfússon um ,,græna málminn“ – að það væri betra fyrir heiminn ef ál leysti stál af hólmi á sem flestum sviðum. Stál er unnið úr djúpum námum og járngrýtisfjöllum. Ál er unnið úr yfirborðsnámum þegar jörð er skafin undan frumskógum með tilheyrandi eyðingu vistkerfa. Til að framleiða eitt tonn af áli þarf 30 sinnum meiri raforku en til að framleiða eitt tonn af stáli. Jafnvel endurvinnsla á áli er raforkufrekari en frumvinnsla á stáli. Er vit í að velja frekar málm sem kallar á eyðingu lands á Íslandi og í frumskógum, málm sem er svo miklu heimtufrekari á orku og auðlindir jarðar?  

Nú þegar vélin malar sem aldrei fyrr og Íslendingar þurfa á fjölmiðlum að halda sem standa í lappirnar eru þessi viðhorf mikil vonbrigði. Einmitt núna á að leika mörg fegurstu háhitasvæði landsins jafn grátt og Hellisheiðina, oftar en ekki með ágengri nýtingu sem gengur á forðann. Núna á að eyðileggja langstærsta laxastofn Íslands með stíflum í Þjórsá. Er það virklega þetta sem þjóðin vill? Er siðferðilega rangt að vilja ekki selja Alcoa orku á lágmarksverði, að skuldsetja ekki orkufyrirtæki okkar fyrir hundruð milljarða? Að fórna ekki dýrmætum svæðum? Að setja ekki öll eggin í eina körfu? Að gera fyrirtækin ekki að ráðandi afli á Íslandi? Hafa almannatenglar KOM, GSP, Athygli, Alcoa, Century, Rio Tinto, Landsvirkjunar, Landsnets, Samorku, OR og HS skilað þessum undraverða árangri? Erum við svo heillum horfin að fjölmiðlar, bloggarar og þingmenn níða okkar bestu dætur fyrir hvað? Að elska landið sitt? 

Höfundur er rithöfundur. 

 


Bloggfærslur 2. september 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband