Mótmæli í mótlæti
23.11.2008 | 10:37
Handtaka þessarar ungu frelsishetju og ekki síður afleiðingar hennar eru hreint út sagt kómískar. Mér þótti með hreinum ólíkindum að fylgjast með viðbrögðum fólks þegar lögreglan hafði spreyjað piparúða á þá sem reyndu að ryðjast inná lögreglustöðina.
Datt fólkinu í alvöru í hug að lögreglan léti það algjörlega óátalið að rúður væru mölvaðar og dyr brotnar upp? Það er nú varla annað hægt en að brosa út í annað þegar maður les viðtal við móður eins "fórnarlambsins" á dv.is. Hún skilur bara ekkert í því að vondu kallarnir hafi úðað piparúða yfir elsku litla engilinn. Ef fólk ætlar að standa í barsmíðum og djöflagangi þá verður það að vera tilbúið að taka afleiðingum þess.
Að öðru leiti er ég mjög hrifin af þeim mótmælum sem fram hafa farið undanfarna laugardaga á Austurvelli, þó mér hafi nú reyndar ekki þótt jafn mikið til ræðumanna síðasta laugardags koma og þar á undan. Þá þótti mér einstaklega vel takast til og ræðumenn blésu kjarki og hugrekki í brjóst landans.
Núna fannst mér Herði Torfa fatast flugið illilega þegar hann hvatti fólk til þess að ganga upp að lögreglustöðinni á Hverfisgötu til þess að frelsa "Bónusflaggarann". Hann mátti auðvitað vita að það yrði allt vitlaust þar. Skipulagið var farið úr mótmælunum og þá er fjandinn laus.
Um leið og fólk fer að beita ofbeldi í mótmælum þá missa þau marks og fara að snúast uppí andhverfu sína, þar sem málstaðurinn hverfur og markmiðið verður bara ofbeldið sjálft. Þetta gerðu menn eins Nelson Mandela, Gandi og fleiri sér grein fyrir og þeirra er minnst sem mikilmenna í sögunni einmitt vegna þeirrar trúar sem þeir höfðu á friðsömum aðgerðum.
Það er svo auðvelt að hætta að taka mark á fólki sem beitir ofbeldi við að ná fram markmiðum sínum og það er einmitt það sem gerist ævinlega og það er einmitt það sem gerðist við lögreglustöðina á Hverfisgötu.
Það er ómögulegt að láta einhverja ófriðarseggi og ólátabelgi skemma það starf sem er hafið, með eggjakasti og barsmíðum. Að sjálfsögðu hvet ég alla til þess að mæta niður á Austurvöll og láta í sér heyra. Breið og góð samstaða þjóðarinnar gegn sérhagsmunum og eiginhagsmunagæslu er það sem virkar.
![]() |
Fanganum sleppt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)