Færsluflokkur: Menning og listir

Hugvekja á Þjóhátíð

Setning ÞjóhátíðarÁgætu Þjóðhátíðargestir.  Til hamingju með daginn og dagana sem framundan eru.  Það er auðvitað von mín og trú að hér muni allt ganga vel og að við eigum hér ánægjulegar stundir, þar sem gömul tryggðarbönd munu halda og ný jafnframt bundin.

Í aðdraganda þessarar Þjóðhátíðar hefur nýtt lag með háðfuglunum úr Baggalúti verið nokkuð til umræðu og óhætt að segja að sitt sýnist hverjum í þeim efnum.

Mörgum hefur þótt vegið að Þjóðhátíð hér í Eyjum með texta Baggalúta, en hann er jú vissulega á köflum á mörkunum eins og maður myndi segja.  Lýsingin á ástandinu er óneitanlega nokkuð döpur, svo ekki sé meira sagt.

Þessi texti gefur okkur þó færi á að velta skemmtanahaldi yfir Þjóðhátíð fyrir okkur, og ætti auðvitað að þjappa fólki saman um að hafa gaman í jákvæðasta skilningi þess orðs.  Nú kann auðvitað einhver að spyrja: “Hvenær er gaman á neikvæðan hátt?”  Jú við þekkjum þær sögur, og ef til vill hafa einhverjir sjálfir reynslu af því, að hafa svo gaman að maður muni ekki neitt.  Þá fyrst fernú gamanið farið að kárna.

Það sem ég á við er að við tökum höndum saman um að samþykkja ekki neikvætt gaman, að samþykkja hvorki ofbeldi eða aðra vitleysu, gagnvar náunga okkar.  Heimamenn hér í Eyjum gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að Þjóðhátíðin geti farið vel fram, og gestir eru boðnir velkomnir og upplagið allt fyrir Þjóðhátíð er með svo jákvæðum hætti að það væri sorglegt ef fáeinir svartir sauðir eyðilegðu gleðina og ánægjuna fyrir öllum öðrum.

Ég upplifði mína fyrstu Þjóðhátíð í Eyjum síðasta sumar, og verð að segja alveg eins og er að ég bjóst eiginlega við því að hér væri um hefðbundna útihátíð að ræða.  En svo áttar maður sig á því að hér er eitthvað allt annað á ferðinni.  Þetta er eitthvað meira, merkilegra, betra.  Það er eitthvað svo stórkostlegt að sjá Vestmannaeyinga hreinlega flytja inní Herjólfsdal yfir þessa daga. Borð, stólar, myndir og bakkelsi eru flutt í hvítu tjöldin, og maður finnur svo vel hversu velkomnir allir eru, og hversu mikil hátíð fer í hönd.  

Þjóðhátíð er auðvitað fyrst og fremst veisla bæði fyrir líkama og anda.  Og veislur eru eitthvað sem Jesús kunni svo sannarlega að meta, að fólk hittist og hefði gaman.  Hann var meira að segja sjálfur útlistaður sem mathákur og nánast veislusjúkur af andstæðingum sínum.  Já Jesús sótti veislur og samkvæmi og hélt þar margar ræður.  En það voru auðvitað engar skálræður eða athyglissjúkar ég-um-mig-frá-mér-til-mín-snakkræður, heldur djúpvitrar mannlífsgreiningar og tilvistarhugleiðingar.

Veislur og gleði eru vissulega mikilvægur þáttur í lífi okkar.  Við höfum flest tekið þátt í miklum veislum, sumir oftar en aðrir.  Og þegar við höldum á vit bestu minninganna úr uppvextinum eða hugsum um fjölskyldur sem dafna, þá er tengingin svo oft við veislur og gleði.  Þá er lífið farsælt og sáttin ríkir þegar við borðum saman.

Þannig er það einmitt á Þjóðhátíð og þannig á það líka að vera, að við efnum til veislu af því okkur langar til að gleðjast með hvort öðru.  Það er slíkt samfélag sem okkur öllum er ætlað að vera í heiminum.  Það er nefnilega staðreynd að Kristin trú er átrúnaður borðsins, ekki síður en orðsins.

Það er einlæg von mín að við göngum til þessarar miklu hátíðar með gleði í hjörtum og sól í sinni og að á þessari Þjóhátíð megi “elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast.” eins og segir í 85. Davíðssálmi.

Þá kem ég aftur að upphafinu, þ.e. hinum umdeilda texta baggalútsmanna og spurningin er auðvitað sú hvort við tökum texta þeirra sem djúpvitran vitnisburð um mannlífsgreiningu hér á Þjóðhátíð í Eyjum.
Við skulum a.m.k. ekki láta hann verða það. 

Við leggjum þessa Þjóðhátíð í hendur Drottins og biðjum þess að allt fari hér á besta veg. Og að við getum saman verið stolt af því að vera þátttakendur á Þjóðhátíð. 

Fögnum og verum glöð, en minnumst þess jafnan að við sem erum eldri, erum að sjálfsögðu fyrirmyndir yngra fólksins, og þannig tökum við öll þátt í því að móta og skapa þá stemmingu sem við viljum að ríki.  Í sönnum veislu og gleðianda Jesú Krists, þar sem allir gleðjast saman og hjálpast að við að gera þessa Þjóðhátíð að góðum minningarfjársjóði sem leita má í þegar fram líða stundir. Og hjálpast auðvitað að við að gera lífið yndislegt.
Amen.

Myndina tók Óskar Pétur Friðriksson við setningarathöfnina. 
Fleiri myndir frá Þjóðhátíðinni má sjá á síðunum: 
http://eyjar.net/ 
http://www.sudurlandid.is/Eyjafrettir/


Pönk og prédikanir

Heiðar Ingi frændi minn og fóstbróðir var fertugur 18 janúar.  Að því tilefni hélt hann afmælisveislu, sem var með nokkuð öðru sniði en venja er.  Haldnir voru pönktónleikar í Laugarneskirkju, þar sem Blái hnefinn frá Akureyra pönkaði, og pönksveit afmælisbarnsins lék nokkur vel valin lög sem eru í uppáhaldi hjá honum Heiðari. Annað slagið voru gestasöngvara fengnir til að pönkast aðeins líka. 

Heiðar fékk mig til að flytja aðra af tveim prédikunum kvöldsins, hina flutti sr. Bjarni Karlsson.  Ég læt prédikun mína fylgja hér með, sem var nú reyndar venju fremur persónuleg, enda tilefnið nokkuð annað en hefðbundin sunnudagsguðsþjónusta.

Nú er prédikunin komin "óklippt" á síðuna. Njótið heil!

Kæri söfnuður, kæra afmælisbarn: Gleðilegt nýtt ár, og til hamingju með afmælið, árin 40.

Þegar afmælisbarnið hafði samband við mig og spurði hvort ég væri tilbúin að prédika í afmælinu, þá var ég ekki lengi að slá til, enda átti ég hreint ágæta prédikun í pokahorninu sem var alveg ónotuð, a,m.k. ágæta grunnhugmynd. 
Svipað og ágætur frændi minn, sem starfaði sem prestur og þegar kom að jólaprédikun þá átti hann ágætis prédikun á lager sem aldrei hafði verið flutt um haustið, vegna messufalls í ótíð.  Prédikunin byrjaði svona:  Kæri söfnuður, nú eru jólin og þið vitið nú allt um þau”.  Síðan vatt hann sér yfir í efni hinnar ónotuðu haustprédikunar þar sem hann tók haustannir sveitamanna föstum tökum og fjallaði að mestu um göngur, réttir og sláturtíð.

Það er sem ég segi það er óþarfi að láta góða prédikun ónotaða, ekki síst ef menn hafa lagt einhverja vinnu í hana.

Enn eitt árið hefur runnið sitt skeið og nýtt ár er gengið í garð.  Það kemur manni alltaf einhvernvegin á óvart þegar nýtt ártal kemur í ljós.  Við tekur klassískur ruglingur á ártölum frameftir nýju ári og svo loks þegar nýtt ár er einhvernvegin orðin hluti af manni sjálfum, þá kemur enn eitt árið.  Það er það sama sem gerist hjá manni þegar afmælisdögunum fjölgar, maður þarf ævinlega að hugsa sig tvisvar um þegar maður er spurður um aldur.

----

Það er ekki málið hvað maður getur, heldur hvað maður gerir, segir í hinu ódauðlega lagi “Tilfinning” sem Purrkurk pillnikk flutti fyrir margt löngu. Segja má að þessi orð hafa fylgt mér nánast allt lífið.  Það er nefnilega ótrúlegur sannleikur í þessum orðum sem hægt er að heimfæra uppá svo marga hluti.  Þessi orð krefja mann eiginlega um afstöðu, eða þá afstöðuleysi, sem er þá alveg sérstök afstaða út af fyrir sig. 

Einn af þeim mörgu mögnuðu ritningartextum biblíunnar, þar sem skýr afstaða til Guðs og fylgis við hann er tekin, er að finna í Jobsbók. En í Jobsbók segir frá samskiptum Jobs við Guð, þarna kemur líka inn hið fræga veðmál  sem átti sér stað á stað á himnum á milli Guðs og gamla bakarans, eins og Lúther kallaði djöfulinn. Jobsbók er raunasaga þess sem allt missir, en sættist að lokum við Guð og allt fer á betri veg.   Það er ekki nokkur vafi á því að allir geta fundið eitthvað einhversstaðar í Jobsbók sem þeir geta samsamað sig við, hvort sem það er í ræðum Jobs eða vina hans. 

Glíman við Guð, lífið og ekki síst glíman við okkur sjálf getur oft á tíðum verið nokkuð erfið, ekki síst ef við ætlum okkur að geraalla hluti sjálf án nokkurrar aðstoðar frá öðru fólki, og hvað þá án aðstoðar frá Guði.

Það er einmitt í þessu ljósi, - ljósi þessarar baráttu sem Job stóð í og sem við öll stöndum í, sem er svo gaman að sjá Heiðar Inga á þeim stað í lífinu sem hann nú er á, og kannski kann einhverjum líka að þykja undarlegt að sjá mig á þeim stað sem ég er á í dag.

Staðan er óneitanlega svolítið ólík því sem áður var, þegar við frændur stóðum í allnokkrum flísalögnum þegar ég kom suður og eins þegar hann kom norður.  

Fyrir þá sem ekki vita þá voru flísalagnir háþróað dulmál sem notað var í ákveðnum efnaviðskiptum á sínum tíma.  Að sjálfsögðu vorum við sannfærðir um að enginn skildi þetta magnaða dulmál.  En fyrir þá sem eitthvað þekktu til okkar þá hefur það nú hljómaði heldur undarlega að tveir menn með tíu þumalfingur stæðu í jafnmikilli flísalagningu og gefið var í skyn.

Hér áður fyrr vorum við að sjálfsögðu sannfærðir um að við gætum allt sem við gerðum og gerðum allt sem við gætum.  En það er með þetta eins og svo margt, þegar menn fara fram úr sjálfum sér að þá er það auðvitað býsna margt sem fólk veit ekki að það getur og annað sem það heldur að það geti, en getur alls ekki.

Það er svo undarlegt með það að við frændur höfum svo oft verið á svipuðum stað í lífinu, og eins og títt er um yngri fóstbræður, þá leit ég, og lít reyndar enn, allnokkuð upp til Heiðars. 

Það var t.d. Heiðar sem kenndi mér að meta pönk.  Ég man eins og gerst hafi í gær þegar ég heyrði pönk fyrst inní herbergi hjá honum heima á Illugastöðum.  Það liggur við að manni vökni um hvarma þegar maður hugsar til þessarar stundar. 
Ég fékk að vera inní herbergi hjá stóra frændanum, sem vissi allt og gat allt.  Og saman hlustuðum við á þá mögnuðustu tóna sem ég hafði á minni stuttu ævi heyrt.  Og kveðskapurinn var heldur ekkert slor.

Ég leyfi mér að bregða upp nokkrum áhrifaríkum myndum af þeim kveðskap sem fluttur var þarna í herberginu í sveitinni forðum, og feta þar með í fótspor frænda þegar hann veislustjórnaði brúðkaupi útí Eyjum nú á haustdögum:
Byrjum á nokkrum línum úr hinu ódauðlega lagi Augun úti með Purrkinum

Það er stórkostlegt
alveg meiriháttar
Liggur í augum úti

Það er meiriháttar
það liggur í augum úti

Það er frábært
Það er stórkostlegt
alveg meiriháttar, alveg hreint sjúkt!!!

Í niðurlaginu á Gleði, í flutningi sömu sveitar segir síðan:

Það er svo gaman
En svo kemst ekki í vinnuna fyrr en á
fyrr en á mánudaginn
mánudaginn

Í þessum ljóðlínum endurspeglast gleðin yfir lífinu, gleðin yfir hinu hversdagslega, eins og að mæta til vinnu á mánudegi.  Já, hér er sannleikurinn fundinn, hér stendur hann nakinn fyrir framan mann.  Ef til vill hefur sannleikurinn verið höndlaður í þessum orðum, orðin höndluð af sannleikanum eða sannleikurinn í orðunum höndlaður af sannleikanum, án þess að ég ætli að hætta mér að svo stöddu frekar útí þá háguðfræðilegu umræðu sem tekur á höndlun sannleikans.

Sannleikur málsins er hins vegar sá að líf Heiðars í dag er nokkuð ólíkt því sem áður var, ef til vill mætti segja að lífið í dag sé “alveg meirihátta”, og jafnvel “alveg hreint sjúkt”.  Það liggur alveg í augum úti.  Fullt hús af börnum, yndisleg kona, heimili sem er uppfullt af kærleika og ást og svo auðvitað rúsínan í pylsuendanum: Líf sem er grundvallað á trú á algóðan Guð.

Líf með Guði hefur alltaf staðið til boða, - í þeim málum hafa dyrnar aldrei verið lokaðar. 

-----

Í lífinu almennt höfum við heilmarga valkosti, við erum ekki leiksoppur örlaganna þar sem við siglum stjórnlaust að feigðarósi, ó nei.  Við höfum val um svo margt.  En þar með er ekki sagt að við framkvæmum allt það sem við getum, enda er í raun lítið gert með það sem við getum ef við fylgjum því ekki eftir með einhverskonar framkvæmd.

Lokaorð Jobs í glímu sinni við Guð eru ef til vill orð sem Heiðar Ingi, og svo margir kannast við, í glímunni við lífið og í glímu sinni við Guð, þar sem hann hefur oftar en ekki fengið að heyra það: Ég þekkti þig af afspurn, en nú hefir auga mitt litið þig!  Fyrir því tek ég orð mín aftur og iðrast í dufti og ösku.

Og þá kemur eiginleg spurningin sem hollt er að velta fyrir sér:  Fyrir hvað viljum við að þetta ár standi í lífi okkar?  Fyrir hvað munu næstu 40 ár í lífi þínu, Heiðar, standa?  Leiðin er opin, en það er okkar að taka af skarið og ákveða hvort það verði Guð sem vísa mun veginn og leiða okkur áfram.  Það er nefnilega ekki málið hvað maður getur heldur hvað maður gerir.

Og að lokum:
Pönkið lifir, ef algóður Guð lofar.
Amen.   

Botnlaus virðing fyrir sjómönnum

Í gær fór ég á fína tónleika hér í Eyjum, þessir tónleikar voru haldnir til minningar um þá Eyjamenn sem farist hafa á sjó og hrapað frá árunum 1977 - 1988.  Þarna komu fram margt fínt tónlistarfólk og höfðum við Gíslína mjög gaman af.  Inná milli atriða voru nöfn þeirra sem farist hafa lesin upp, og farið aðeins yfir hvert sjóslys fyrir sig.  Auk þess var myndum af sjómannslífi varpað upp á vegg og myndum af þeim sem farist hafa.

Kveikjan að þessum tónleikum var Helliseyjarslysiðárið 1984, en þá fórst Hellisey VE 503 þann 11. mars c.a. 5 km. fyrir austan stórhöfða. Með Hellisey fórust fjórir á aldrinum 19-20 ára.  Einn komst lífs af og synti í land alla þessa leið í svarta myrkri.

Þetta var áhrifamikil stund og góð.  Sjóskaðar snerta alla hér í Eyjum á einn eða annan hátt, og það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir marga þegar þessir atburðir voru rifjaðir upp á svona samkomu, en þetta var allt vel gert og hlutirnir sagðir eins og þeir voru.

Kynnir kvöldsins, Páll Scheving, sá einnig um að telja upp þá sem látist hafa og rifjaðu oft upp sögur um hinn látna.  Marga þeirra hafði hann þekkt, a.m.k. kannast við.

Virðing mín fyrir störfum sjómanna minnkaði ekki eftir gærkvöldið, það er alveg ljóst.  Það er ekki hægt annað en að bera botnlausa virðingu fyrir þessum mönnum.  Starf þeirra hefur oft á tíðum verið sveipað ákveðinni rómantík í lögum, þar sem sjómannslífið er bara hopp og hí og trallallalla.  Svo er maður viðstaddur svona atburð eins og gær, þar sem farið er yfir málin af yfirvegun og alvöru og maður lýtur í kringum sig og áttar sig á því að allsstaðar í kringum mann eru félagar þeirra sem höfðu farist.  Maður áttar sig á alvöru málsins.  Stundum er sjómennskan uppá líf og dauða, því þó bátarnir stækki og verði fullkomnari, þá eru náttúruöflin söm við sig.  Þetta er staðreynd sem sjómenn eru mjög meðvitaðir um, enda hafa þeir reynt ýmislegt á eigin skinni. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband