Vondar ákvarðanir

Það er alveg hreint merkilegt að horfa uppá undarlegheitin í þessu ljósmæðramáli öllu saman.

Hér eru það auðvitað konur sem eru að þjónusta konur og þeir sem skorið geta á hnútinn eru karlar: fjármálaráðherra og heilbrigðismálaráðherra.  Þannig blasir málið við fólki almennt.  Karlar að níðast á konum eins og svo oft áður.

Útspil fjármálaráðherra er að fara með uppsagnir ljósmæðra fyrir dóm svo uppsagnirnar verði dæmdar ólöglegar. 

Útspil heilbrigðismálaráðherra er: Ekki neitt.  Hann hefur tekið þann pól í hæðina að aðgerðarleysi sé einmitt málið til að leysa deiluna, svo undarlegt sem það kann annars að hljóma.

Málið virðist einhvernvegin vera þannig vaxið að það er öllum ljóst, nema þeim sem öllu ráða, hversu borðliggjandi það er að ganga að kröfum ljósmæðra.  Þær hafa flutt mál sitt af festu og öryggi og náð að setja það fram á einfaldan hátt.  Þjóðin held ég að standi almennt með ljósmæðrum í þessari baráttu. 

Ríkisstjórn og þeir sem ráða geta ekki lengur treyst á glampann af ólympíusilfrinu og verða að leysa þetta mál.  Hefðu raunar átt að vera löngu búnir að því, en maður spyr um áhuga, áherslur og forgang, sem er einhvernvegin svo allt annar en þjóðarsálin segir til um.

Ákvörðun fjármálaráðherra um lögsókn er vond, það er alveg ljóst og er ekki til þess fallin að auka á virðingu og vinsældir sitjandi ríkisstjórnar. 


mbl.is Fæddi og fór strax heim til sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband