Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Lokaritgerð úr Guðfræði "Hvar erum við nú stödd? - Umræðan um hjónaband samkynhneigðra í kristnu samhengi við upphaf nýrrar aldar."

Lokaritgerð mín úr guðfræðideld Háskólans fjallaði um hjónaband samkynhneigðra. Hér er hún öllum opin til aflestrar, en þó ekki kóperingar nema með samþykki höfundar, ef einhver er til sem nennir og hefur þolinmæði í að fara í gegnum hana.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Saklaus uns sekt er sönnuð

Mér finnst orðatiltækið "saklaus uns sekt er sönnuð" alltaf hálf fáránlegt. Hvernig getur staðið á því að einhver sem gerir eitthvað rangt sé saklaus uns sekt hans er sönnuð?

Ef ég nú lem einhvern til óbóta þannig að viðkomandi örkumlast, er ég þá saklaus af því þar til það sannast með óyggjandi hætti að ég hafi lamið viðkomandi?  Ef ég stel pening er ég þá saklaus af stuldinum þar til það sannast að ég hafi stolið?

Nei aldeilis ekki, ég er alveg jafn sekur um verknaðinn hvort heldur það tekst að sanna hann á mig eður ei.

Þessi frasi er alveg ótrúlega mikið notaður nú um þessar mundir og það er hamrað á því að allir sem áttu að bera ábyrgð og þáðu fyrir það himinháar launagreiðslur bera engan ábyrgð á einu eða neinu af því að ekki hefur tekist að sanna með óyggjandi hætti að þeir hafi gert eitthvað rangt.

Þá spyr maður auðvitað: Fyrir hvað fengu menn borgað? Í hverju fólst ábyrgðin?

Ég þekki vel dæmi af manni sem eftir margra áratuga puð tókst að borga niður allar sínar skuldir. Þetta tókst honum með ráðdeildi og útsjónarsemi. Svo skellur kreppan á og hann missir vinnuna og fótunum er kippt undan honum. Hann sagði mér sjálfur að það borgaði sig einfaldlega ekki að vinna, slíkt væri eins og hver önnur fásinna. Eftir margra ára puð þá stæði hann uppi eignalaus og framtíðin vonlaus. Á meðan hinir saklausu og ábyrgu lifðu flott og gengju í digra sjóði sína í skattapardísum útí heimi.

Hver ber raunverulega ábyrgð þegar öllu er á botninn hvolft?


Hvítþvegnir sjálfstæðismenn

Alveg er þetta dæmalaust. Þeir sem sváfu á verðinum eru nú verðlaunaðir fyrir sofandaháttinn. Þjóðin kemur auðvitað með að kjósa þá sem hún treystir best, eða hvað?

Það er eiginlega orðið grátlegt að fylgjast með sjálfstæðismönnum halda hlífiskildi yfir fyrrum foringja sínum Davíð Oddsyni. Ef menn telja þjóðinni trú um að þeir þurfi há laun vegna ábyrgðar, þá eiga þeir að sjá sóma sinn í því að axla ábyrgð þegar þeir eru rúnir öllu trausti. En í stað þess að axla ábyrgð á einhvern hátt, þá kýs Davíð að snúa sorglegu endatafli sínu í lélegan farsa. Fer í þykistuleik um læknisheimsókn.  Þetta óneitanlega dapurt á að horfa og í raun skammarlegt.  Það er eins og ónefndur sagði: "forsætisráðherrann Davíð Oddsson væri búinn að fleygja seðlabankastjóranum Davíð Oddsyni öfugum úr Seðlabankanum, og líklega leggja Seðlabankann niður."

Dapurlegar eru síðan umræðurnar sem fram fara á alþingi. Það er morgun ljóst að þar á bæ eru alltof margir sem eru fyrst og fremst að hugsa um hag flokksins, en ekki þjóðarinnar. Karpað er um hver átti hugmyndina að hverju og af hverju.  sjallar segjast hafa verið með öll mál nýrrar ríkisstjórnar í pípunum, og samfylkingin segir að sjallar hafi ekkert viljað gera, sjallar segja á móti að samfylkingin hafi ekkert viljað gera.

Hverslag rugl er þetta eiginlega? Er þetta ekki fullorðið fólk? Er þetta ekki fólkið sem á að redda okkur í þeim hremmingum sem þjóðin er nú stödd í?  Má ég þá heldur biðja dætur mínar, þriggja og sex ára að taka á málunum, frekar en þessa snillinga.  Á meðan fólk karpar um ekki neitt inná þingi er fólk á vonarvöl.  Fólk er að missa vinnuna, fyrirtæki að fara á hausinn, einstaklingar að fara á hausinn, einstaklingar að kikna undan brjálæðislegum afborgunum af hratt fallandi húseignum. 

Ég segi eins og geðlæknirinn fyrir norðan: "Þetta á að vera vitiborið fólk með báðar fætur á jörðinni. Og ef svo er þá hlýtur það að gera sér grein fyrir afleiðingum gjörða sinna."  Gallinn er kannski einna helst sá að lítið virðist vera að gerast annað en að sjallar saka ríkisstjórnina um einelti gagnvart Davíð greyinu Oddssyni, sem nota bene er saklaust fórnarlamb pólitískra ofsókna og ber enga, ég endurtek enga ábyrgð á þróun mála undanfarinna ára í íslensku þjóðfélagi.....NOT!!


mbl.is Stuðningur við Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dauði fátækra barna

Á hverjum einasta degi, allt árið um kring  er áætlað að 30.000 börn deyi vegna fátæktar. 
Það væri hægt að bjarga hundruðum þúsunda þessara barna með því að skaffa þeim hreint vatn.
Vatnið er til staðar í löndunum, vandinn er bara að nálgast vatnið sem er neðanjarðar.  Og hvernig gerum við það, jú með því t.d. að byggja brunna sem kosta um 250.000 og duga fyrir heilu þorpin í afríku.
poverty2
Vandamálið er ekki að peningarnir séu ekki til, vandamálið er viljaleysi.  Staðreyndin er sú að það er ekki nokkur vilji til þess að breyta ástandinu.  Þetta kann að virðast mikil dómharka, en er það svo? Mér sýnist málið snúast, eins og ævinlega, helst um að skara eld að eigin köku.

Hér á landi gráta fjármálafyrirtækin yfir slakri afkomu miðað við undanfarin ár.  Fólk talar um hversu dýrt bensínið sé orðið, hversu mikil verðbólgan sé orðin, hversu dýrt sé að versla í matinn.  Vissulega er það rétt að margir hér á landi eiga erfitt með að ná endum saman, það er staðreynd sem ekki er hægt að horfa framhjá.  Það er staðreynd sem ætti að vera hægt að vinna bug á með markvissum hætti. 

En önnur staðreynd er sú að þau vandamál sem margir eru að velta fyrir sér eru lúxusvandamál.  Staða bankanna er í raun lúxusvandamál, að hagnaðurinn sé bara 10 milljarðar í stað 25 milljarða eins og vonast var eftir.  Þegar við lítum á heildarmyndina þá eru þessi lúxusvandamál ekki það sem öllu skiptir.  Þegar við horfum til þess að á sama tíma og bensín hækkar um 2 krónur á einum degi, þá hafa 30.000 börn dáið vegna fátæktar.

Í augum heimsins virðist það ekki vera neitt sérstakt vandamál að 30.000 börn deyi á dag.  Dauði fátækra barna kemur ekki fram í úrvalsvísitölum kauphalla, gengi gjaldmiðla á vesturlöndum eða afkomu fyrirtækja.  Í raun snerta þessar fréttir engan. 
Eða hvað? 
Er ekki sorgin sú sama hjá ríkum foreldrum og fátækum? 
Er ekki missirinn jafn sár hjá mér og föður sem býr í Úganda?

Allar fréttir snerta einhvern.  Það er bara svo þægilegt að horfa framhjá þeirri staðreynd, ekki síst þegar atburðirnir eiga sér stað í lífi einhvers sem við þekkjum ekkert til og að ég nú tali ekki um ef atburðirnir eiga sér stað í fjarlægum löndum. 

Rangur misskilningur

Eftirfarandi beiðni sendu Sameinuðu Þjóðirnar ríkjum heims:

"Viljið þið vinsamlegast gefa okkur heiðarlega skoðun ykkar á því hvaða lausn kæmi helst til greina til að koma í veg fyrir matarskort um allan heim."

Ríki heims sendu inn svör, þar sem rauði þráðurinn var á þessa leið:

Í Afríku vissi fólk ekki hvað orðið "matur" þýddi.
Sumar Austur-Evrópuþjóðirnar skildu ekki orðið "heiðarlega".
Vesturlandabúar skildu ekki orðið "skortur".
Í Kína hafði engin heyrt minnst á orðið "skoðun".
Í Mið-austurlöndum vandræðuðust menn með orðið "lausn".
Í Suður-Afríku kom orðið "vinsamlegast" mönnum í opna skjöldu.
Í Bandaríkjunum vissu menn ekki hvað "um allan heim" þýddi.

 


Að sameinast í sundrung

Mér þykja slæmar fréttirnar úr minni gömlu heimabyggð þar sem undarlegum lagagreinum er beitt fyrir sig í þessu sameiningarmáli.  Ég efast ekki um að menn hafi lögin með sér, en það hlýtur alltaf að vera sterkara að hafa íbúana með sér þegar kemur að svona sameiningarákvörðunum.

Svo er ekki laust við að manni finnist það undarlegt þegar menn hlaupast undan merkjum og skipta um lið í miðri á, en það virðist þó verða æ algengara í pólitíkinni, sbr. þing og borgarstjórn.

Vel getur verið að menn finni engin rök gegn sameiningu eins og Haraldur Bóasson sagði í fréttum, en finnst svo er þá ætti ekki að vera mikið mál að sannfæra íbúa í Þingeyjarsveit og Aðaldal um að það sé rétt. 

Mér sýnist sem svo að íbúar sveitarfélaganna hafi ekki fengið að vita hvað muni fást útúr þessari sameiningu.  Skýrslan sem unnin var gekk útfrá sameiningu þriggja sveitarfélaga, en ekki tveggja.
Skólamálin koma án efa til með að verða erfiðust í þessu máli og þess vegna eðlilegast að búið sé að ganga frá þeim þegar kemur að sameiningu.
Í raun vita menn ekkert hvað sameining þýðir fyrir íbúana annað en að nýtt nafn verður sett á sveitarfélagið og það er ekki ýkja góð ástæða fyrir sameiningu.
Ef til vill þýðir sameining ekkert nema endalaust góðæri og blóm í haga, en þá er a.m.k. rétt að halda því til haga og upplýsa um þær grænu grundir og smjördrjúpandi strá.

Svo sýnist manni enn vera nokkuð í land með að íbúar Þingeyjarsveitar hugsi og upplifi sig sem íbúa í sama sveitarfélagi.  Það er verkefni sem ég held að væri betra að klára áður en rokið er í að sameina frekar.


mbl.is Meirihlutinn í Þingeyjarsveit fallinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðvegi lokað

Það er svolítið merkilegt að upplifa það að þjóðvegurinn milli lands og Eyja skuli trekk oní trekk vera lokaður vegna bilunar.  Í næstu viku er fyrirsjáanlegt að þjóðvegurinn verði alveg lokaður í a.m.k. tvo daga á meðan Herjólfur fer í slipp.  Ferðir sem eiga að taka 2 klukkutíma og 45 mín. hafa tekið 6 klukkutíma.  Þetta er nú varla boðlegt, ekki síst í ljósi þess að Eyjamenn hafa lengi kallað eftir nýjum Herjólfi því þessi er löngu kominn á tíma.  Það er sama inní hvaða bekk í barnaskólanum hér í Eyjum er farið, öll börn vita að kominn er tími á nýjan Herjólf. 

En þetta virðast þeir sem eiga að halda þjóðveginum gangandi ekki vita.

Ég heyrði umræður um samgöngumál á kaffistofu hér í bæ og þar kom einmitt fram að margir höfuðborgarbúar hafa sagt við Eyjamenn að þeim sé nógu gott að búa við þær samgöngur sem þeir nú búa við.  Eyjamenn hafa sjálfir valið að búa á þessari eyju.  Einn kaffispjallari sagðist vera farinn að svara höfuðborgarbúum, sem kvarta undan umferðarþunga í borginni, með þeim orðum að viðkomandi hafi sjálfur valið að búa í borginni og eigi þess vegna að gera sér umferðarhnúta og tafir að góðu.

Ef til vill er kominn tími til að við reynum enn betur að setja okkur í spor annarra, líka hvað samgöngur varðar.  Allir staðir hafa eitthvað sem gerir það að verkum að fólk vill búa þar, og það á auðvitað að gera fólki kleift með góðum ráðum og lausnum að búa þar sem það helst kýs, á þann hátt að því líði sem best, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.

 


mbl.is Herjólfi seinkar vegna bilunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigum við að passa okkur á pólverjum?

HateÁ eyjan.is var frétt, ekki alls fyrir löngu um vefsíðuna skapari.com (læt slóðina fylgja með svo fólk sjái sjálft vitleysuna sem dæmir sig algjörlega sjálf).  Síðan sú er uppfull af hatri og forheimsku sem maður hélt einhvernvegin að myndi hverfa þegar fólk lærði að lesa.  En svo er greinilega ekki. Í framhaldinu fór ég að velta því fyrir mér hvort það geti verið að útlendingar eða aðrir minnihlutahópar séu litnir hornauga á draumalandinu Íslandi?

Ég heyrði um daginn fréttir af miklum átökum í stigagangi í blokk í Reykjavík.  Það börðust menn á banaspjótum með eggvopnum.  Nokkrir voru stungnir, en enginn lést, sem betur fer.  Í fréttinni, sem birtist í DV þótti ástæða til að taka það fram að hér hefðu ekki verið Íslendingar á ferðinni heldur Pólverjar.

Og hvað svo.  Hver eru skilaboð fréttarinnar?  Eigum við að vara okkur á Pólverjum sérstaklega?  Eða eigum við að vara okkur á útlendingum yfir höfuð?  Hjálpaði það okkur eitthvað við úrvinnslu á fréttinni að vita að þeir sem tókust á voru Pólverjar?

Í framhaldi af þessari frétt þá var hlustendum gefinn kostur á að hringja inn á einni útvarpsstöðinni og tjá sig um útlendingavandamálið.  Það óðu uppi menn sem þótti ástæða til að hella úr skálum reiði sinnar og kenna innflytjendum um allt það sem miður fer á Íslandi.

Staðreynd þess máls var hins vegar sú að vissulega var þarna um Pólverja að ræða.  En það sem vantaði uppá í fréttinni var íslenski hlutinn.  Í 90 fermetra blokkaríbúð bjuggu 11 pólskir verkamenn, sem voru í vinnu hjá íslensku fyrirtæki sem hefur orðið þekkt af slæmri meðferð á starfsfólki sínu.  Fréttiraf illri meðferð íslenskra verktakafyrirtækja á erlendum farandverkamönnum verða æ meira áberandi.   Þessu höfðu margir varað við, en yfirleitt var skellt skollaeyrum við slíkum röddum, enda mátti ekkert slíkt koma uppá yfirborðið meðan hraðinn og brjálæðið var sem mest við uppbygginguna á Kárahnjúkum.  Nú þegar um hægist þá virðist ýmislegt misjafnt koma í ljós, sem þó var látið viðgangast alveg fram að þessu.

Að sumu leyti minnir þessi orðræða nokkuð á ástand mála eins og það var í Suður-Afríku á tímum aðskilnaðarstefnunnar, og einnig á ástandið sem var í Bandaríkjunum fyrir nokkrum áratugum.Þá þótti hið eðlilegasta mál að kenna svörtum um allt það sem miður fór, og árásir á þá voru einfaldlega viðurkenndar af samfélaginu.  Það var í lagi að lemja svart fólk, eins og það þótti eðlilegasti hlutur í heimi að lemja homma hér uppá Íslandi ekki alls fyrir löngu.

Paradísarfuglar pólitíkur og tónlistar.

Skelltum okkur í helgarfrí í höfuðborgina um helgina.  Það er búið að vera hreint magnað að fylgjast með fréttum um helgina, þar sem allir saka alla um svik.

2judasÁ nokkrum stöðum sá maður að Sjallar hefðu átt svikin skilið, þar sem þeir fóru illa með Ólaf F. eftir síðustu kosningar.  Þessu hefur bæði áhugafólk um pólitík haldið fram og líka pólitíkusar.  Maður hlýtur að spyrja um siðferðisstandard hjá fólki sem heldur þessu fram. 
Hvernig getur ein hnífsstunga réttlætt aðra?
Af hverju eru Sjallar sárir, þegar þeir fóru svona með Ólaf F.?
Af hverju lætur Bingi eins og það sé í lagi að haga sér svona, finnst Sjallar höguðu sér svona?
Af hverju eru borgarfulltrúar Sjalla að jarma, ef þeir voru tilbúnir að láta Villa gossa?

Pólitíkin er undarlegt fyrirbæri.  Manni sýnist sem svo að fæstir í þessu máli hafi hreina samvisku.  Þetta er svolítið einsog börn í sandkassa.  Allir benda á næsta og segja "hann gerði svona líka, og þá má ég." 

"Svo skal böl bæta og bend'á eitthvað annað" sungu þeir Megas og Tolli forðum með Íkarus, og það á svo sannarlega vel við í þessu máli.

***************

Úr því að "skrifið" berst að Megasi, þá er auðvitað rétt að gera grein fyrir þessum prýðistónleikum sem við Gíslína (og Ólöf, systir mömmu, og Sveinbjörn, maðurinn hennar) fórum á um helgina í Laugardalshöll þar sem meistarinn var í fantaformi.

Þessir tónleikar voru stanslaus tveggja tíma keyrsla, þar sem allt það besta var borið fram.  Það var reyndar allnokkuð af fyrri plötu Megasar og Senuþjófanna. 

Það var með hreinum ólíkindum að verða vitni að því að Megas skyldi spila fyrir fulla höll (allt í sætum).  Meðalaldur gestanna var nokkuð fyrir ofan meðallag á popptónleikum, og ég sá meira að segja a.m.k. eitt sóknarbarn mitt þarna (Árni Johnsen var mættur og sat á besta stHold er moldað).

Það er erfitt að segja hvað stóð uppúr, en þarna var boðið uppá allnokkrar snilldar útsetningar af gömlum slögurum, einsog t.d. Orfeus og Evridís, Ég á mig sjálf, Tvær stjörnur.  Og svo auðvitað hefðbundnari útfærslur á lögum einsog Krókódílamanninum, Við sem heima sitjum, Ragnheiður biskupsdóttir, Gamla gasstöðin, Borðið þér orma, Spáðu í mig, Saga úr sveitinni, Paradísarfuglinn og fleira og fleira, ásamt nýrra efni sem hljómar ótrúlega vel á tónleikum.

Hljóðfæraleikur Senuþjófanna var alveg feikilega góður og þéttur og varla slegin feilnóta allt kvöldið. 

Ég fjárfesti síðan í nýju plötu Megasar og Senuþjófanna og er búinn að hlusta nokkuð á hana og það er óhætt að segja að hún lofi góði, enda er hér um rökrétt framhald af fyrri plötu að ræða.  Platan ber heitið Hold er mold og er koverið vægast sagt ögrandi þar sem þrjár íðilfagrar yngismeyjar sitja oná legsteini Jónasar Hallgrímsson, hvar undir eru meintar líkamsleifar þjóðskáldsins.  Það var snillingurinn Ragnar Kjartansson sem tók myndina sem prýðir koverið.


Að skjóta börn

Að hugsa sér, þrjú börn voru skotin af misgá, herinn hélt þetta væru herská börn!!  Hvernig er heimurinn eiginlega?  Ég stóð einhvernvegin í þeirri meiningu að það ætti einfaldlega ekki að skjóta börn, jafnvel þó þau séu herská eða ódæl á einhvern hátt.

Ísraelski herinn gerir sig sekan um a.m.k. tvennt í þessu máli.  Annars vegar að skjóta saklausa borgara - saklaus börn, og hins vegar að ætla sér að skjóta börn - herská börn.  Það má vart á milli sjá hvort vekur hjá manni meiri hrylling. 

Ljóð Kristjáns frá Djúpalæk, Slysaskot í Palestínu (Í víngarðinum), lýsir ástandinu á þessum slóðum vel.  Þetta er áhrifaríkt og magnað ljóð sem má auðvitað heimfæra á hvern þann stað þar sem stríðsástand ríkir.

Lítil stúlka. Lítil stúlka.
Lítil svarteyg dökkhærð stúlka
liggur skotin.
Dimmrautt blóð í hrokknu hári.
Höfuðkúpan brotin.

Ég er Breti, dagsins djarfi
dáti, suður í Palestínu,
en er kvöldar klökkur, einn,
kútur lítill, mömmusveinn.

Mín synd er stór. Ó, systir mín.
Svarið get ég, feilskot var það.
Eins og hnífur hjartað skar það,
hjarta mitt, ó, systir mín,
fyrirgefðu, fyrirgefðu,
anginn litli, anginn minn.

Ég ætlaði að skjóta hann pabba þinn.


mbl.is Börn sem Ísraelar skutu unnu ekki fyrir hryðjuverkamenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband