Rangur maður, á röngum tíma, í vitlausu húsi?

stopÞað er stór gaman að lesa pistil sr. Hjartar Magna Fríkirkjuprests sem birtist á visir.is.  Þar fer hann yfir tilurð þess að "veraldlegt" brúðkaup var haldið í Fríkirkjunni.

Þegar maður les þessa fínu, nánast tímamótagrein sr. Hjartar Magna þá er ekki laust við að manni finnist hann ekkert kannast við að hann sé prestur, kemur nánast af fjöllum.  Þannig þótti honum nú lítið mál að gifta fólk í kirkjunni sinni án þess að minnast einu orði á Guð í því samhengi, enda bara forpokaðir ríkislaunaðir kirkjustofnunarprestar sem slíkt gera.  Auðvitað er það eins og hver önnur fjarstæða að prestur sé eitthvað að flækja Guði inní kirkju.

Sr. Hjörtur Magni segir í pistlinum: 

"Manngildi, réttlæti og frelsi eru einmitt grunngildin í boðskap siðræns húmanisma. Þeir hafa víða verið brautryðjendur á sviði mannréttinda. Í boðskap þeirra um frelsi er átt við frelsi mannsandans undan ýmsum þeim höftum og fjötrum sem meðal annars trúarbrögð hafa skapað.

Mér dettur ekki til hugar að mótmæla þessu, enda held ég nú svosem að fólk geri það almennt ekki.  Ég tel sjálfan mig vera kristinn húmanista sem hef manngildi í öndvegi. 

Jafnframt talar sr. Hjörtur Magni um að gagnrýni húmanista á synda- og sektarboðskap kirkjunnar eigi fullan rétt á sér.  Og það er alveg hárrétt hjá sr. Hirti Magna.  Öll gagnrýni á rétt á sér, líka sú sem við erum ekki sammála.  Það gildir um hvaða málefni sem er.  Í framhaldi af þessu segir sr. Hjörtur:

Hinir rétttrúuðu finna húmanistum einnig það til foráttu að þeir byggja ekki lífsskoðun sína á bókstafslegri tilvísun í yfirnáttúruleg furðuverk, skáldskap og myndlíkingar, sem finna má í ævafornum trúarritum. Í stað þess reyna húmanistar að nálgast okkur út frá upplýstri heimsmynd nútímans og reyna að efla okkar eigin sjálfsmynd.

Ég velti því fyrir mér hvort sr. Hjörtur Magni sé smám saman að gera sér grein fyrir því að hann leggi ekki nokkurn trúnað á "þann skáldskap" og "þær myndlíkingar" sem talað er um í biblíunni.  Ef til vill hefur sr. Hjörtur Magni enga sérstaka trú á þeim játningum sem Fríkirkjan í Reykjavík þó játar, ég veit það ekki.  Fríkirkjusöfnuðurinn í Reykjavík hefur nefnilega nákvæmlega sömu játningar til grundvallar og Þjóðkirkjan, á því er enginn munur og þess vegna er trúin sú sama, þó stjórnunin sé ekki sú sama.

Svo endar sr. Hjörtur Magni á þessum orðum:

Kristur leitast við að sameina alla í kærleika. Hann er hafinn yfir alla flokkadrætti kirkjustofnana, lífsskoðana eða trúarbragða.

Spurningin er þá bara fyrir hvað prestur stendur yfir höfuð, þar með talinn sr. Hjörtur Magni.  Ég get alveg skrifað undir það hjá sr. Hirti Magna að Jesús Kristur sé hafinn yfir flokkadrætti, en eftirfylgd við Jesú Krist er hins vegar algjör, það undirstrikar Jesú margoft, ef við kjósum yfir höfuð að taka mark á guðspjöllunum.  Það gera auðvitað ekki allir, ég geri mér fulla grein fyrir því, og óþarfi að agnúast útí þau sem það ekki gera.  Ég leyfi mér hins vegar að velta því fyrir mér hvort það skipti einhverju máli hvað fólk segir, eftir því hvaða stöðu eða starfi það gegnir.

Væri t.d. ekki svolítið magnað að sjá landsfundarmenn á flokksþingi VG mæra stefnu Sjálfstæðisflokksins í hástert?  Þó VG og Sjallar séu ekki sammála um ákveðin grundvallaratriði þá er ekki þar með sagt að þetta fólk geti ekki talað saman og virt skoðanir hvors annars, skárra væri það nú.  En Sá sem er skráður í VG, og sér ekki sólina fyrir stefnu Sjálfstæðisflokksins, ætti kannski frekar að skrá sig úr VG og í Sjálfstæðisflokkinn. 

Allt saman spurning um að vera staddur á "réttum" stað samkvæmt þeim skoðunum sem maður stendur fyrir. 

 Spurning hvort orð Egils Helgasonar eigi við í þessu tilfelli:

Þaðan sem ég bý sé ég í turnana á tveimur gömlum kirkjum, Dómkirkjunni og Fríkirkjunni. Mér finnst nærvera Dómkirkjunnar þægileg. Hins vegar virðist Fríkirkjan vera orðin vettvangur pólitískrar baráttu þar sem trúin er hálfgert aukaatriði.

Hér má lesa stuttan pistil Egils um "veraldlegu" giftinguna.

Í þessu bloggi felli ég enga dóma um eitt eða neitt, ég leyfi mér hins vegar að velta upp ýmsum spurningum, enda spurning hvort ég hef verið "höndlaður af sannleikanum" eða hvort "ég hef höndlað sannleikann" eða þá hreinlega hvort "sannleikurinn hefur verið höndlaður af hinum eina sanna sannleika"?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

"Í þessu bloggi felli ég enga dóma um eitt eða neitt,"

Nei, þetta er svokallað dylgjublogg. Þú ert ágætur í þeirri grein.

 "Ég tel sjálfan mig vera kristinn húmanista sem hef manngildi í öndvegi."

Vandamálið er að þú setur annað gildi framar manngildinu - ekki satt? 

Matthías Ásgeirsson, 9.10.2007 kl. 13:06

2 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Vel að orði komist og einstaklega flott myndskreyting!

Svavar Alfreð Jónsson, 9.10.2007 kl. 13:21

3 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Þakka hrósið Matthías, er ég kannski að misskilja?  En finnst ég er að tala um hrós, þá má ég til með að hrósa þér Matthías fyrir myndirnar þínar á flickr.

Þakka þér Svavar, myndin kom frá félaga mínum sem þótti hún lýsandi fyrir vingulsháttinn í dag.

Guðmundur Örn Jónsson, 9.10.2007 kl. 15:54

4 Smámynd: Linda

Þakka þér fyrir þessa pælingu.  Ég hef engan vegin geta sætt mig við að Hjörtur kalli sig prest Guðs, inn í fríkirkjuna fer ég ekki, og hvað þá að hlusta á mann sem afbakar orðið og snýr út úr því í sína eigin veraldlegu þágu. Ég vona og bið þess að Guð leiði hann út úr þessari villu.

Linda, 9.10.2007 kl. 17:32

5 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Mér finnst þú tala um Hjört á svipaðan hátt og prestar sem eru á móti samkynhneigð tala um þá frjálslyndu.  "Frjálslyndir" eru of líbó fyrir svartstakka, Hjörtur er of líbó fyrir þá "frjálslyndu".

Er hugsanlegt að óvild ykkar í garð Hjartar flækist dálítið fyrir ykkur - hvað hefur hann eiginlega gert af sér í þessu máli.

Hrós og ekki hrós - ég skrifa iðulega dylgjublogg og merki þau þá sem slík - en það er list að gera það vel.

Þakka flickr hrósið.

Matthías Ásgeirsson, 9.10.2007 kl. 17:59

6 Smámynd: Þorgeir Arason

Þakka þér fyrir áhugaverðan pistil. Ég vil leyfa mér að taka undir orð þín, enda vel valin. Ég hafði lesið umrædda grein og fundist hún afar einkennileg, eins og þú bendir á.

Þorgeir Arason, 9.10.2007 kl. 22:58

7 Smámynd: Mofi

Stop myndin er einkar skemmtileg. Skil ekki þetta vandamál manna að dæma ekki, afhverju finnst fólki svo slæmt að benda á það sem miður fer?

Mofi, 10.10.2007 kl. 13:07

8 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Matthías: Ég hef síður en svo á móti þeim sem eru frjálslyndir í afstöðu sinni til hinna ýmissa mála. Ég geri hins vegar greinarmun á því að vera frjálslyndur og færa rök fyrir máli sínu á skynsaman hátt. Sr. Hjörtur Magni færir ágæt rök fyrir siðrænum húmanisma, sem ég hef nóta bene ekkert á móti, en ég held að prestur sem hefur meiri trú á siðrænum húmanisma en kristinni trú, geti ef til vill verið á rangri hillu (samanber samanburðinn á VG og Sjálfstæðisflokknum).

Það er til nokkuð sem heitir kristinn húmanismi, sem ég veit að margir prestar aðhyllast. Ég veit einnig að mörgum prestum þykir slíkt ekki góð latína, en inní þeirri jöfnu er þó Guð ekki fjarri. Mér finnst það semsagt hljóma undarlega þegar prestur kýs að taka Guð útúr lífsjöfnunni.

Sr. Hjörtur Magni talar vissulega um Jesú Krist í grein sinni, en það skín hins vegar í gegn hjá honum að í raun og veru skipti hann alls engu máli. Ég held að flestir geti verið sammála um að það vantar eitthvað uppá sannfæringuna hjá sr. Hirti Magna.

Eins og ég benti á þá aðhyllist fólk svo misjafna hluti og lífsskoðanir okkar allra eru misjafnar, en það hlítur að vera krafa hvers kristins safnaðar að presturinn (sá sem leiðir helgihaldið) trúi því sem hann prédikar, annars er hætta á að menn verði ekki marktækir. Svo ég noti orð eins sóknarnefndarmanns í sókn þar sem upp kom trúnaðarbrestur milli prestsins og safnaðarins: "Ég gerir þá kröfu að presturinn sé trúaður, ef hann er ekki trúaður, en segist samt vera það, þá geri ég kröfu um að hann "leiki leikritið" til enda." Þetta lýsir nú kannski svolítið mikilli krísu í samskiptum prests og safnaðar.

Mofi: Eins og ég segi þá hef ég ekkert við það viðhorf að athuga sem sr. Hjörtur Magni heldur á lofti - pers se. Það er aftur á móti staðan, starfið sem hann gegnir og það viðhorf sem hann lýsir í greininni sem mér finnst dulítið undarlegt. Ergo, ég dæmi ekki þau viðhorf sem fram koma í siðrænum húmanisma, en set spurningarmerki við að það sér prestur sem heldur þeim hærra á lofti en kristinni trú.

Guðmundur Örn Jónsson, 10.10.2007 kl. 20:47

9 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Ef til vill hefur sr. Hjörtur Magni enga sérstaka trú á þeim játningum sem Fríkirkjan í Reykjavík þó játar, ég veit það ekki. Fríkirkjusöfnuðurinn í Reykjavík hefur nefnilega nákvæmlega sömu játningar til grundvallar og Þjóðkirkjan, á því er enginn munur og þess vegna er trúin sú sama, þó stjórnunin sé ekki sú sama.

Mér finnst þetta undarlegt. Hefur þú trú á játningum Þjóðkirkjunnar?

...en eftirfylgd við Jesú Krist er hins vegar algjör, það undirstrikar Jesú margoft,...

Hvað áttu við með því að eftirfylgd við Jesú sé algjör?

Ég held að flestir geti verið sammála um að það vantar eitthvað uppá sannfæringuna hjá sr. Hirti Magna.

Ég held að það geti nánast allir verið sammála um það að Hjörtur er ofurfrjálslyndur prestur. En ég veit ekki hvað þú átt við með því að það vanti eitthvað upp á sannfæringuna hans. Hvað áttu við með því?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 11.10.2007 kl. 01:18

10 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Hjalti: Ég veit ekki hvort við gætum kallað Sjálfstæðismann sem skrifar algjörlega undir stefnu VG ofurfrjálslyndan sjálfstæðismann (og svo öfugt).  Sá væri einfaldlega kallaður Vinstri grænn.

Ég velti því fyrir mér hvort hið sama geti átt við sr. Hjört Magna; þ.e. að hann aðhyllist fremur siðrænan húmanisma frekar en kristni, og þá er það bara þannig og ekkert útá það að setja í sjálfu sér.  Reyndar er ég nú þegar búin að velta þessu upp í öðru svari og vísa í það.

Eftirfylgd við Jesú er algjör vegna þess að við erum ekki ekki bara kristin þegar okkur hentar, heldur alltaf, líka þegar það er óþægilegt. Vísa í þessu sambandi á bók Dietrich Boenhoffer sem kölluð hefur verið á íslensku "Hin dýra náð", en á ensku "The cost of Discipleship".  Þetta er maður sem fylgdi Jesú allt til enda.  Þetta er einn af þeim sem tók þátt í morðtilræðinu á Hitler (sem reyndar mistókst).  Rök hans fyrir þátttöku í banatilræðinu voru að sem kristinn einstaklingur gæti hann t.d. ekki horft á brjálaðan mann aka inní hóp af saklausu fólki, hann yrði að reyna að grípa í stýrið hjá bílstjóranum og það var það sem reynt var að gera í þessu tilræði.  Líkt og aðrir sem tóku þátt í þessu tilræði þá náðist Boenhoffer og var hengdur í fangabúðum rétt fyrir stríðslok.

Eftirfylgd við Jesú er ekki eitthvað hipsum haps útí loftið, heldur kemur fram í lífi, athöfnum orðum og gjörðum fólks.

Já Hjalti ég hef trú á þeim játningargrunni sem þjóðkirkjan stendur á, ég veit að þér finnst það fáránlegt og þér finnst það hallærislegt og fíflalegt og ég veit ekki hvað og hvað.  Og það er bara allt í góðu lagi með það.  Enda stöndum við ekki fyrir það sama, það er alveg á hreinu, og það er líka hið besta mál. 

Annars finnst mér nokkuð gott að þeir sem koma sr. Hirti Magna ævinlega helst til varnar er annað hvort fólk frá Siðmennt eða Vantrú.  Mætti þá kannski kalla sr. Hjört Magna siðmenntar prestinn eða vantrúar prestinn????

Guðmundur Örn Jónsson, 11.10.2007 kl. 09:27

11 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Ég veit ekki hvort við gætum kallað Sjálfstæðismann sem skrifar algjörlega undir stefnu VG ofurfrjálslyndan sjálfstæðismann (og svo öfugt). Sá væri einfaldlega kallaður Vinstri grænn.

Ég er sammála þessu, en efast um að Hjörtur taki algjörlega undir t.d. stefnuskrá Siðmenntar. Hann telur örugglega að guð sé til og að Jesús hafi verið sonur guðs. Mér finnst undarlegt að túlka góð orð hans um siðrænan húmanisma sem afneitun á kristni.

Eftirfylgd við Jesú er algjör vegna þess að við erum ekki ekki bara kristin þegar okkur hentar, heldur alltaf, líka þegar það er óþægilegt.

Nú skil ég ekki hvernig þetta tengist skrifum Hjartar.

Að hvaða leyti er hann ekki að fylgja eftir Jesú?

Já Hjalti ég hef trú á þeim játningargrunni sem þjóðkirkjan stendur á,...

Ertu viss? Trúir þú þá því að þeir sem Jesús mun fordæmi við síðari komu sína munu kveljast að eilífu?

Annars finnst mér nokkuð gott að þeir sem koma sr. Hirti Magna ævinlega helst til varnar er annað hvort fólk frá Siðmennt eða Vantrú. Mætti þá kannski kalla sr. Hjört Magna siðmenntar prestinn eða vantrúar prestinn????

Nei. En ég hef reyndar ekki tekið eftir því að það sé alltaf fólk frá
Siðmennt eða Vantrú sem kemur honum til varnar.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 11.10.2007 kl. 11:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband