Lífið er yndislegt....

Um þessa verslunarmannahelgi vorum við hjónaleysin á Þjóhátíð í Eyjum.  Það er óhætt að segja að sú mynd og sú upplifun sem við höfðum af Þjóðhátíðinni er gjörólík þeirri mynd sem oft hefur verið dregin upp í fjölmiðlum.  Ég bjóst eiginlega við mikilli fylleríssamkomu og allsherjar djöfulgangi.  En raunin varð síðan allt önnur, enda sýnist mér fréttaflutningur nú vera mun hófsamari en áður.

Við tókum að sjálfsögðu þátt í fjölskyldudagskránni yfir daginn og voru stelpurnar okkar mjög ánægðar með hana.  Á föstudagskvöldinu fórum við Mía (eldri stelpan) á kvöldvökuna og skemmtum okkur konunglega í rápi á milli tjalda þar sem við gæddum okkur á lunda og ýmiskonar kruðeríi, síðan tókum við virkan þátt í söng og dansi fyrir framan stóra sviðið.  Allir virtust skemmta sér hið besta og voru í góðum gír.  Ég ætla nú svosem ekki að halda því fram að fólk hafi allt verið bláedrú, en það kom bara alls ekki að sök.

Á laugardeginum vorum við inní dal, en slepptum kvöldinu, enda stelpurnar ekki beint í gírnum.

Á sunnudegi vorum við inní dal og fórum síðan öll á kvöldvökuna, þar sem við sungum hástöfum í brekkusöngnum undir dyggri stjórn Árna Johnsen. 

Það er óhætt að segja að upplifun mín af Þjóðhátíð hafi breytt viðhorfi mínu til hennar, og kennir manni kannski að dæma ekki um það sem maður hefur prófað.  Hingað til Eyja streymdi að fólk á öllum aldri (líka 18-23. ára) og allt virðist hafa gengið upp, enda mikil undirbúningsvinna á bakvið þetta allt saman.

Við Mía fórum líka í eitt magnaðasta partý sem ég hef komist í.  Það var í kjötsúpuveislu hjá Gauja í Gíslholti og Hólmfríði.  Þau eru með opið hús hjá sér fyrir gesti og gangandi og bjóða uppá kjötsúpu og alvöru Eyjastemmingu.  Inní stofu hjá þeim er síðan hljómsveit sem spilar stanslaust frá 15.00 til kjötsúpuloka, sem var kl. 18.30 að þessu sinni.  Þetta var stórgóð skemmtun sem gleymist seint.


mbl.is Fíkniefnamál mun færri í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú hef ég aldrei farið á Þjóðhátíð í eyjum (var alltaf að vinna hjá hagsmunaaðila Einnar með öllu þegar ég var yngri og þar kom aldrei til greina fyrir nokkurn að fá frí) en er gríðarlega forvitin um það hvað þessi hátíð þýðir fyrir bæjarbúa í Vestmannaeyjum.

     Heldur fólk sig almennt inni í dal eða eru skemmtanir líka á skemmtistöðum bæjarins? Ef fólk fer á skemmtistaðina líka er það þá að þvælast um bæinn eða er stefnan alltaf í dalinn aftur? Hvernig er umhorfs fyrir bæjarbúa, er hlandstækja yfir öllu og rusl og drykkjurútar á hverju strái yfir daginn?

     Mér finnst það algerlega sitt hvor hluturinn hvort þú ert að stefna saman tveimur hópum með sitt hvort markmiðið í einn hrærigraut eins og hér á Akureyri eða hvort hátíðin fer fram við bæjarfótinn þar sem allir sem þar eru staddir vita að það verður drukkið og það verður djammað hressilega og ef þeir eru ekki sáttir við það þá ættu þeir að sleppa því að mæta.

     Aldurstakmarkið er mjög umdeilanlegt. Útkoma helgarinnar var hins vegar mjög ánægjuleg fyrir flesta Akureyringa. Bara spurning um að fara réttari leið að því að fá sömu útkomu að ári. Við viljum ekki öll græða peninga þessa helgi, mörg ef ekki flest okkar vilja bara hafa það náðugt, á okkar eigin hátt eins og þorri landsmanna.

     Þetta er held ég ekki spurning um stæla Akureyringa heldur stæla forsvarsmanna hátíðarinnar sem halda því fram að þeir séu að reka fjölskylduhátíð, til að fá hana samþykkta, en skipuleggja samt sem áður alltaf djamm og maraþon-drykkjuhátíð, sbr. mikla lengingu á opnunartíma skemmtistaða.

      Kveðja

      -Kristín

Kristín Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 7.8.2007 kl. 14:40

2 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Fólk er auðvitað mest inní dal, en fer líka á skemmtistaðina í bænum. Ég held reyndar að sóðaskapurinn í tengslum við skemmtistaðina sé svipaður og aðrar stórar helgar. Stóri munurinn á Þjóðhátíð og Einni með öllu er að bækistöðvar fólksins eru inní dal en ekki inní miðri íbúðabyggð. Mér fannst nú reyndar stemmingin almennt góð á deginum og frekar lífleg og almennt skemmtileg. Kannski sumir myndu tala um drykkjurúta, en veðrir spilar auðvitað heilmikið inní og þess vegna var fólk almennt í góðu skapi, bæði heimamenn og gestir.

Guðmundur Örn Jónsson, 7.8.2007 kl. 22:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband